Kvikmyndin Bohemian Rhapsody er útvötnuð og grunn greining á ferli Queen og ævi Freddie Mercury en gagnrýnanda Lestarinnar leiddist þó aldrei, þökk sé ódauðlegri tónlist Queen og kraftmikilli frammistöðu Rami Malek í aðalhlutverkinu.
Marta Sigríður Pétursdóttir skrifar:
Bohemian Rhapsody hefur fengið afleitar móttökur hjá kvikmyndagagnrýnendum en myndin trónir hins vegar á toppnum sem vinsælasta kvikmyndin í bíóhúsum vestan- og austanhafs, eftir að hafa ýtt annarri tónlistarmynd, A Star is Born, úr efsta sætinu. Í gær birtist grein í The Guardian þar sem menningarblaðamaðurinn Steve Rose veltir því fyrir sér hvort gagnrýnendur séu með öllu tilgangslausir, Hollywood stórmyndir fá afleita dóma en ná samt svona góðum árangri í miðasölu, en Hollywood snýst jú fyrst og fremst um vörumerki eins og hann bendir á.
Gæði myndar skiptir engu máli á meðan þú ert með sterkt vörumerki. Það leikur enginn vafi á því að Queen er risastórt vörumerki og tónlist sveitarinnar og persónuleiki Freddie Mercury hafa fyrir löngu ölast goðsagnakenndan blæ. Að hinum meðlimum Queen ólöstuðum þá fer það ekkert á milli mála að Freddie Mercury er hin eina sanna goðsögn og án hans væri engin Queen. Það er líka saga hans sem er sett í forgrunn Bohemian Rhapsody ásamt tónlistinni og það eru sennilega þessi tvö atriðið sem skipta höfuðmáli í velgengni myndarinnar. Rami Malek tekst að ljá myndinni góða orku með kraftmikilli og sannfærandi frammistöðu í hlutverki goðsagnarinnar Freddie Mercury.
Bohemian Rhapsody er leikstýrt af Bryan Singer sem er einna þekktastur fyrir að hafa leikstýrt Usual Suspects og svo X-Men myndunum en eitthvað virðist hafa gengið erfiðlega við tökur á myndinni vegna þess að þegar um tvær vikur voru eftir af tökum var Singer rekinn og breski leikarinn og leikstjórinn Dexter Fletcher var fenginn til þess að koma og klára verkið. Að einhverju leyti þá virðist Bohemian Rhapsody vera einkennileg blanda af mynd sem er að reyna að vera ævisöguleg og svo söngleikur þar sem raunveruleiki og fantasía bráðna saman í einhvers konar Disney-vænni útgáfu af lífi Freddie Mercury. En Freddie Mercury var að sjálfsögðu enginn engill, heldur mikilvægt hinsegin íkon sem fór sínar eigin leiðir í lífsstíl og tónlistarsköpun en hann lést aðeins 45 ára að aldri árið 1991 úr alnæmistengdum kvillum. Í Bohemian Rhapsody er ekki reynt að fela neitt af því sem þótti því miður svo hneykslanlegt á meðan Freddie Mercury lifði, kynhneigð hans og svo sjúkdóminn sem dró hann til dauða. Í myndinni er einnig uppruna hans gerð skil og fjölskyldu, en hann var Parsi fæddur á Indlandi, ólst upp á Zanzibar, sem þá var hluti af breska heimsveldinu, þar til hann flutti ásamt fjölskyldu sinni Bretlands.
Bohemian Rhapsody skautar hins vegar einstaklega fimlega á yfirborðinu og fer ódýrar krókaleiðir í frásagnartækni og fer á tíðum frjálslega með staðreyndir eins og gagnrýnendur og álitsgjafar keppast við að benda á í umfjöllun um myndina. Eftir stendur fremur þunnildisleg og klisjukennd saga. Anthony McCarten skrifar handrit myndarinnar með samþykki þeirra Brian May og Roger Taylor, liðsmanna Queen, en myndin gerir sér mat úr meintum svikum Mercury við Queen þegar hann hóf sólóferil sinn og það er þá spurning sjónarhorn hverra er ríkjandi hér.
En leiddist mér á Bohemian Rhapsody? Nei, mér leiddist ekki vegna þess að ég gleymi því aldrei þegar ég kynntist tónlist Queen sem barn og þeir töfrar hafa ennþá eitthvað tangarhald á mér - ég er ekki frá því að þar sé síendurteknu áhorfi á Wayne’s World að þakka - en það er til gamans að geta að Mike Myers fer með hlutverk í Bohemian Rhapsody sem fúll og efasemdafullur plötuútgefandi. Tónlist Queen og sannfærandi frammistaða Malek nær að gera myndina að ágætis afþreyingu. Ég komst líka við í lok myndarinnar þegar 20 mínútna tónleikar Queen á Live Aid tónleikunum frá 1985 eru endurgerðir í tilþrifamikilli kvikmyndasenu þegar Queen taka „We are the Champions“ - ég komst við vegna þess að Freddie Mercury og saga hans og hæfileikar til þess að sameina fólk í söng og dansi voru einstakir og kvikmyndin minnti mig á það, ég heyrði þetta gríðarlega ofspilaða lag alveg upp á nýtt. Freddie Mercury segir í myndinni - Queen er hljómsveit samsett af utangarðsmönnum sem gerir tónlist fyrir þá sem upplifa sig utangarðs - en miðað við vinsældir Queen á heimsvísu og það hvernig tónlist þeirra hefur staðist tímans tönn þá erum við sennilega öll eitthvað utangarðs.
Freddie Mercury lifði svo sannarlega á jaðrinum og þótti hneykslanlegur á meðan hann var á lífi en á sama tíma talaði hann til fjöldans þrátt fyrir að vera bæði skotspónn kynþáttafordóma og hómófóbíu. Bohemian Rhapsody getur seint talist góð ævisöguleg kvikmynd en hún nær þó til fjöldans og þrátt fyrir útvatnaða útgáfu af ævisögu Freddie Mercury þá er tekið á þessum mikilvægustu þáttum lífs hans og ástarsamböndum. Fyrst og fremst er það ódauðleg tónlist Queen með Mercury í fararbroddi sem heldur myndinni á floti. Ég vona samt innilega að við fáum einhvern tíman betri ævisögulega kvikmynd um Freddie Mercury.