Þegar stillt er á tíðnina FM103,7 á utanverðum Tröllaskaga ómar útsending FM Trölla úr viðtækjunum. Það eru liðin níu ár síðan þessi litla útvarpsstöð hóf fyrst útsendingar á Siglufirði og útsendingarsvæðið fer stækkandi.
„Við erum komin með einn sendi á Hvammstanga og svo er í pípunum að fara í Skagafjörð. Það er ekki búið að dagsetja það en það gerist í vor," segir Gunnar Smári Helgason, hljóðmaður og eigandi Trölla sem heldur einnig úti fréttavefnum trolli.is ásamt eiginkonu sinni Kristínu Sigurjónsdóttur.
„Þetta er bara baktería sem hefur fylgt mér alla tíð. Ég hef alltaf haft gríðarlegan áhuga á útvarpi," segir Gunnar Smári.