„Ef listaverk gæti ekki verið til án almennings, þá er almenningur lykill að því að verkið verði til. Sá sem sér verkið býr það líka til. Alveg eins og borgin er bara til út af borgaranum. Þá er mjög mikilvægt, ef við, almenningur, sem eigum borgina, eigum listaverkin, getum haft eitthvað að segja um þessa sameign,“ skrifar Starkaður Sigurðarson í pistli um útilistaverk.


Starkaður Sigurðarson skirfar. Pistillinn var fyrst fluttur í Víðsjá á Rás 1, 23. janúar: 

Árið 2019 er ár listar í almenningsrými hjá Listasafni Rekjavíkur. Athyglinni verður beint að listaverkum sem eru í almenningsrýminu; listaverk sem eru úti, verk sem hægt er að sjá í göngutúrum, á hjóli, akandi um borgina, landið. Listaverk sem eru oft eign almennings. Verk sem virka á annan hátt en þau sem eru inni, staður sem þú þarft að ákveða að fara og sjá; verk í almenningsrými getur þú séð óvart, kannski ekki vitað að sé listaverk. 

Ísland hefur ekki langa sögu af almenningslistaverkum, en nú eru um 180 verk á vegum Reykjavíkurborgar. Þau verk sem finnast í almenningsrýminu eru oftast í eigu borgar eða ríkis, í eigu stofnana, þó verk í einkaeign finnist líka úti. Núna þegar almenningsrýmið Reykjavík hefur breyst hratt og mikið undanfarin ár, og mun halda áfram að breytast, staður þar sem almenningur finnur fyrir minni aðild, minna valdi, yfir því hvernig þetta rými lítur út, hvernig það virkar, þá er það verðugt verkefni að skoða hvernig list birtist í okkar rými. Ekki er svo langt síðan að einstaklingur gat keypt lóð í Reykjavík og byggt hús eftir eigin huga án of mikillar fyrirhafnar, peninga, eða pappírsvinnu. Ekki er svo langt síðan Reykjavíkurborg úthlutaði Ásmundi Sveinssyni listamanni lóð við Sigtún til að byggja húsnæði og vinnustofu sem hann teiknaði og byggði að mestu leiti sjálfur. Eitthvað sem seint myndi gerast í Reykjavík í dag. Fólk finnur fyrir því að borgarlandslagið virðist færast meir og meir úr þeirra höndum. Á sama tíma er aukið ákall fyrir því að almenningur hafi eitthvað að segja um þann heim sem við búum í, viljum búa í. En hverskonar aðild hefur einstaklingur að sínu umhverfi? Hversu mikið vald hefur almenningur yfir almenningsrými sínu? 

Pólitískt rými

Listaverk sem er úti er ein af fáum leiðum sem einstaklingur getur áþreifanlega breytt þessu rými. En það er ekki einfalt, og í raun er erfitt að segja að einstaklingur hafi allt það vald, þar sem í dag þarf einstaklingur, listamaður, að fara í gegnum langt ferli umsókna, funda, starfsmanna, sérfræðinga, áður en nokkuð er gert við þetta rými. Það þarf að huga að öryggi klifrandi barna, hvernig listaverkið birtist frá þeim mörgu ólíku sjónarhornum samfélagsins. Útilistaverk hafa oft vakið mikið umtal, og deilur, í orði og gjörðum. Almenningsrýmið er pólitískt rými. Það er erfitt að svara því hver eigi þetta rými, hver eigi rétt á að breyta því. 

Myndlist hefur lengi velt þessum spurningum fyrir sér. Hvað er samband listamannsins og almennings? Án almennings væru engir sýningargestir, væri engin myndlist. Þó er það myndlistarmaðurinn sem ákveður hvað er myndlist, og þá hvað er ekki myndlist. Myndlistarmaðurinn ögrar oft samfélaginu, eða leikur sér að því, notar það, skoðar það, en er sjálfur hluti af því. 
Það er kannski augljóst hvernig Ásmundur Sveinsson sá fyrir sér virkni sinna listaverka innan borgarmyndarinnar. Styttur, úr brons eða steypu, annaðhvort af manneskjum, fígúrum, eða abstrakt formum, sem gáfu almenningi eitthvað, minntust einhvers, sýnir þeim einhverja, oftast góða eða melankólíska eða fallega, tvíundaða, hugmynd. Sigurður Guðmundsson, sem er fyrsti listamaðurinn sem Listasafn Reykjavíkur tekur fyrir á þessu ári listar í almenningsrými, gerir eitthvað allt annað. Verk hans eru ekki augljós, þau spyrja spurninga, ekki tilvitnun í neitt formfast né sérstakt nema þá kannski hvernig heimurinn okkar er alltaf að breytast. Hann dregur fram úr borgarlandslaginu hversu einkennilegt og afkáralegt það er. En þau verk hans sem sýnd eru eru ennþá hlutir, eitthvað sem einstaklingur sér og leiðir til einhverrar hugsunar. Þetta setur listamanninn og almenning að vissu leiti sitthvorum megin við þennan hlut. Ég bjó eitthvað til fyrir þig að sjá. Þetta er ekki endilega lýðræðislegt samband. Samband sem listamenn hafa verið, að vissu leyti, að taka í sundur.   

Lýðræðislegri nálgun

Ólöf Nordal, annar listamaður sem Listasafn Reykjavíkur tekur fyrir, bjó til annarskonar almenningslistaverk. Þúfan, verk hennar sem hefur staðið úti á Granda nú í fimm ár, má líka kalla hlut, búinn til af mannshendi, og stendur á landfyllingu, en virkni hans er allt öðruvísi. Það er hægt að ganga upp á þessa þúfu, frá toppinum er hægt að sjá í kringum sig, hægt að sjá borgina, strandlengjuna, umferð, leikhús, kirkjur, byggingarkrana, ferðamenn. Á toppi þúfunnar er líka hjallur þar sem þurrkast harðfiskur, eitthvað skilgreint sem Íslenskt. Ólöf biður almenning ekki um að sjá, endilega, þennan hlut, þennan hól, eða fiskinn, heldur býður verkið almenningi að skoða borgarlandslagið sjálft, samfélagið sjálft, okkar eigin fiski-sögu, skoða okkur sjálf. Sjónarhóll til þess að virða fyrir sér og spyrja spurninga um borgarmyndina, frá nýjum hluta af borgarlandslaginu. Hér virkjar Ólöf almenning á annan hátt en Ásmundur gerði. Sambandið er lýðræðislegra. Sem er lýsandi fyrir þróun myndlistar undanfarna áratugi. Spurningarnar sem myndlist spyr eru þær sömu og finnast í umferðarteppum borgarskipulagsins, skrifstofum og framkvæmdasviðum launþegans, uppi í stillans verkvitsins. Markmiðið er ekki að búa til fallegan eða flókinn hlut sem aðeins er hægt að gera með sérstakri kunnáttu eða námi. Þegar sagt er um listaverk, „barnið mitt gæti gert þetta“, þá er það einmitt hugmyndin. Myndlist er ekki bara fyrir einhverja fáa útvalda með hæfileika í höndunum. List er almenningseign; hugmyndir, tilfinningar, sögur, list er samtal. 

Og ef listaverk gæti ekki verið til án almennings, þá er almenningur lykill að því að verkið verði til. Sá sem sér verkið býr það líka til. Alveg eins og borgin er bara til út af borgaranum. Þá er mjög mikilvægt, ef við, almenningur, sem eigum borgina, eigum listaverkin, getum haft eitthvað að segja um þessa sameign. 

Nýlega sýndi leikhópurinn 16 Elskendur leikverkið Leitin að tilgangi lífsins í gömlu læknavaktinni á Smáratogi. Allir þeir sem pöntuðu miða fengu símtal frá leikhópnum nokkrum dögum fyrir sýningu. Sýningargesturinn var spurður nokkrum spurningum, persónulegum og ópersónulegum, sem tengdust Smáratorgi, vellíðan, vanlíðan. Þessar upplýsingar, sem flestir gáfu frjálslega, voru síðan notaðar í sýningunni sjálfri. Uppáhalds lagið þitt var spilað fyrir þig, mynd af þér sem finnst á netinu var sett fyrir framan þig, hamingjan og óhamingjan sem þú lýstir í símanum var leikinn og hlutgerð af bæði leikurunum, þínum samsýningargestum og þér. Maður varð smá hræddur en líka hreyfður. Leikhópurinn eignaði sér ekki bara almenningsrými, heldur almenning sjálfan, þeirra sögur, nöfn, ljósmyndir, áhyggjur; sjálfsmynd okkar var ögrað. Þetta er það sem list er. Að búa til leiðir til að sýna okkur sjálf okkur. Að búa saman í borginni.