Rúmur helmingur kveðst óánægður með störf Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, samkvæmt þjóðarpúlsi Gallups. Ragna Árnadóttir dómsmálaráðherra er hins vegar vinsælasti ráðherra landsins. Um tveir af hverjum þremur segjast ánægðir með störf hennar. Viðskiptaráðherra, Gylfi Magnússon er næst vinsælastur ráðherranna en tæpur helmingur aðspurðra segist ánægður með hans störf.
Vinsældir ráðherra voru síðast mældar í september en sú könnun sem hér er vísað til var gerð um miðjan mars. Nú er rætt um uppstokkun í ráðherraliði og sameiningu ráðuneyta.
Landsmenn eru nú mun ánægðari með störf utanþingsráðherranna tveggja en pólitísku ráðherrana. Vinsældir dómsmálaráðherra eru langmestar; 65% segjast ánægð með hennar störf og hafa vinsældir hennar aukist um 16 prósentustig frá því í síðustu könnun. Tæpur helmingur, eða 49%, segist ánægður með störf Gylfa Magnússonar, viðskiptaráðherra.
Í þriðja sæti á vinsældalistanum í þetta skiptið er Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, en um 44% þjóðarinnar er ánægð með hennar störf. Ánægja með störf Steingríms J. Sigfússonar, fjármálaráðherra, hefur lítið breyst milli kannana en rúmt 41% segjast ánægð með hans störf. Rúm 27% lýstu ánægð með störf forsætisráðherrans, Jóhönnu Sigurðardóttur, sem hafnar í fimmta sæti á listanum. Um 56% aðspurðra segjast óánægð með störf hennar.
Af öllum ráðherrum ríkisstjórnarinnar eru flestir óánægðir með störf Jóhönnu. Á eftir Jóhönnu á listanum er Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra, en tæpur fjórðungur segist ánægður með hennar störf. Minnst ánægja er með störf Álfheiðar Ingadóttur, heilbrigðisráðherra, Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegsráðherra og Kristjáns L. Möller samgönguráðherra. Um og undir 14% segjast ánægð með þeirra störf og nýtur Kristján minnstra vinsælda þeirra þriggja. Þess ber þó að geta að um og yfir þriðjungur segist hvorki ánægður né óánægður með þeirra störf.