Þingforsetar og fleiri fulltrúar þjóðþinga Evrópuráðsríkja með undir einni milljón íbúa komu saman í Reykjavík í vikunni. Þátttakendur voru frá Andorra, Kýpur, Lichtenstein, Lúxemborg, Mónakó, Möltu, San Marínó og Svartfjallalandi auk gestgjafans, sem var Einar K Guðfinnsson, forseti Alþingis.

Innan Norðurlandanna, annarra en Íslands, koma stjórnvöld iðulega saman ásamt öflunum á vinnumarkaði og ákveða sameiginlega efnahagsstefnu ríkisins. Þetta er gert til að byggja vörn gegn hugsanlegum efnahagslegum áföllum. Norðurlöndin, hvert fyrir sig, teljast smáríki þótt þau séu miklu stærri en örríkin sem þinguðu í Reykjavík í vikunni, og efnahagskerfi smáríkja eru viðkvæmari en í stórum löndum eins og Þýskalandi, Bretlandi eða Frakklandi að maður nefni ekki enn stærri ríki. Innan alþjóðastofnana eins og Sameinuðu þjóðanna og undirstofnana, Alþjóðagjaldeyrissjóðsins svo dæmi sé tekið, þá mynda smáríki oft bandalög. Það styrkir utanríkispólitík þeirra. Utanríkisþjónusta einstakra ríkja er til marks um sjálfstæði þeirra, segir Baldur Þórhallsson prófessor í stjórnmálafræði og forstöðumaður Rannsóknarseturs smáríkja kynnti á fundinum í Reykjavík ýmsar þær rannsóknir sem unnar hafi verið á smáríkjum og samskiptum við stærri ríki.