Guðlaugur Þór Þórðarsson, nýr utanríkisráðherra, segir að það skipti miklu máli að það verði skýrt á kjörtímabilinu hvert stefnir í Evrópumálum. Það hafi verið ákvörðun formanna að þingið ákveði undir lok þess hvort aðildarviðræðum verður fram haldið, sjálfur sé hann mótfallinn því að Ísland gangi í sambandið.
Guðlaugur Þór segir að yfirleitt tali fólk um Evrópumálin út frá Evrópusambandinu. „Við erum í miklu samstarfi í Evrópu. Ríki Evrópu taka þátt í ýmsu samstarfi. Við erum í EFTA, við tökum þátt í Evrópska efnahagssvæðinu, við erum partur af Schengen. Fæst ríkin eru í öllu, það er að segja ganga lengst í samrunanum; ESB, evrunni, Schengen og svo framvegis. Það er auðvitað mikið að gerast á þessum vettvangi eins og í alþjóðamálunum og mikilvægt að fylgjast vel með. Það eru auðvitað óveðursský á lofti, því miður, sérstaklega efnahagslega.“
Guðlaugur Þór var spurður að því í Morgunútvarpinu á Rás 2 hvort Sjálfstæðisflokkurinn geti átt aðild að ríkisstjórn sem ákveður að fara í aðildarviðræður. „Hversu trúverðugt er ef ríkisstjórn er í landinu sem vill ekki fara í Evrópusambandið?" svarar hann. „Bara almennt, sleppum þessari ríkisstjórn og tölum almennt um það. Hvernig á ráðherra, sem fer með umboð í þessu, að skrifa undir aðildarsamninginn sem hann er á móti?“