Út með þá gömlu, inn með þá nýju - og konur

19.06.2017 - 05:55
epa06035929 La Republique en Marche (REM) president Catherine Barbaroux (C) delivers a speech after polls closed for the second round of the French legislative elections in Paris, France, 18 June 2017. According to exit pools, French President Macron&#039
Catherine Barbaroux, formaður En Marche, ávarpar stuðningsfólk flokksinsá sunnudagskvöld. Aldrei hafa jafnmargar konur verið kosnar á franska þingið og er það ekki síst rakið til þess að En Marche gætti fullkomins jafnræðis í kynjaskiptingu frambjóðenda.  Mynd: EPA
Þrír af hverjum fjórum fulltrúum á nýkjörnu þingi Frakklands hafa aldrei áður setið á þingi og konur hafa heldur aldrei verið jafn margar á frönsku löggjafarsamkundunni og þær nú, eða 223 talsins. Kjörsókn var hins vegar minni en dæmi eru um í sögu fimmta lýðveldisins.

Þegar búið var að telja upp úr öllum kössum í seinni umferð frönsku þingkosninganna reyndist kosningabandalag flokks Emmanuels Macrons Frakklandsforseta, En Marche, og Lýðræðishreyfingarinnar frönsku, sem einnig er miðjuflokkur, hafa fengið 350 þingsæti af 577 á frönsku löggjafarsamkundunni.  En Marche fékk 308, en Lýðræðisbandalagið 42. Í síðustu kosningum, 2012, var En Marche ekki til og Lýðræðisbandalagið fékk innan við tvö prósent atkvæða.

Bandalag hægri flokka, með Repúblikana í forystu, fékk 137 þingsæti nú en Sósíalistar og samstarfsflokkar þeirra guldu algjört afhroð; aðeins 44 þingsæti verða skipuð fólki úr þeirra röðum í stað 300 áður. 27 fulltrúar Róttæka vinstri flokksins mun taka sæti á franska þinginu, Þjóðfylkingin uppskar 8 þingsæti og aðrir flokkar 9.

Þótt sigur En Marche og Lýðræðishreyfingarinnar (MoDem) sé afgerandi og tryggi Macron þægilegan þingmeirihluta á komandi árum er hann umtalsvert minni en spáð hafði verið. Síðustu skoðanakannanir bentu til þess að kosningabandalag nýju flokkanna kæmi til með að fá á bilinu 420 til 470 þingsæti. Engu að síður marka kosningarar algjöran umsnúning í frönskum stjórnmálum.

Þrír af hverjum fjórum þingmönnum eru nýir á þingi. Er þetta mesta endurnýjun í sögu fimmta lýðveldisins. Þá voru 223 konur kosnar á þing og hafa aldrei verið fleiri. Fyrra met, frá síðasta þingi, var 155 þingkonur. Þetta er ekki síst rakið til þeirrar ákvörðunar Macrons og hans fólks að hafa jafn margar konur og karla í framboði.

Stóru valdablokkirnar tvær, Repúblikanar og þeirra bandamenn annars vegar, og Sósíalistar og þeirra samstarfsflokkar, tapa samtals yfir 300 þingsætum til miðjuhreyfingarinnar. Kjörsókn hefur aldrei verið minni í þingkosningum í fimmta lýðveldinu franska, eða 42,6 prósent.  
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV