Í úttekt landlæknis á bráðamóttöku Landspítalans er ástandið sagt óviðunandi, álag sé meira en deildin ráði við og hjúkrunarrými skorti. Páll Matthíasson, forstjóri spítalans, fagnar því að landlæknir taki undir áhyggjur á spítalanum. Alma Möller landlæknir segir mikilvægt að bregðast við fráflæðisvanda spítalans og efla þjónustu við eldri borgara áður en flensutíð hefst í febrúar.

„Í minnisblaði Landlæknis segir meðal annars að sjúklingar á bráðamóttöku þurfi að bíða lengur eftir innlögn, biðtíminn er nú 23,3 tímar miðað við 16,6 í fyrra. Dæmi eru um 66 tíma bið og að sjúklingar ljúki meðferð án þess að hafa komist á viðeigandi deild. Álag á hjúkrunarfræðinga eykur hættu á því að eitthvað fari úrkeiðis. Slíkum atvikum tengdum umhverfi og aðstæðum á deildinni hefur fjölgað á árinu.

Sjúklingar, sérstaklega aldraðir, sem lokið hafa meðferð á spítalanum geta margir ekki útskrifast þar sem úrræði skortir utan sjúkrahússins. Sá vandi hefur farið stigvaxandi. Þessi vandi endurspeglast í háu nýtingarhlutfalli legurýma sem er hærra en æskilegt er á bráðasjúkrahúsi.

„Það sem okkur finnst alvarlegast í þessu minnisblaði er þegar við á bráðadeildinni getum ekki tryggt fullnægjandi þjónustu og öryggi þeirra sjúklinga sem leita til okkar. Það gerist alltaf öðru hvoru þegar álagið er hvað mest,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans.

Spítalinn hafi undanfarin ár varað við vandanum og bent á að hann fari vaxandi. „Við hefðum vilja sjá fleiri hjúkrunarheimili risin nú þegar en raunin er á höfuðborgarsvæðinu en nú er verið að bregðast hratt við þar,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.

Þá hafi ítrekaðar tafir á opnun sjúkrahótels líka haft áhrif. 

Álag á spítalanum eykst enn skömmu eftir áramót, þegar von er á flensutíð, segir Jón. „Við vitum það að á hverju ári þegar flensan kemur þá bætir enn þá í, álagið hérna á okkur í bið eftir innlögn lengist um þrjá til fjóra tíma.“

Páll tekur í sama streng. „Það er full ástæða til að hafa áhyggjur. Það er gott að sjá að embætti Landlæknis staðfesti þær áhyggjur okkar og að heilbrigðisyfirvöld taki þetta alvarlega.“

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra vildi ekki veita viðtal vegna málsins en sagði í samtali við fréttastofu að mikill þungi væri í minnisblaði landlæknis. Þær aðgerðir sem nefndar eru þar séu allar í farvegi með einum eða öðrum hætti. 

Alma Möller landlæknir ræddi stöðuna í kvöldfréttum í sjónvarpi. „Þetta er auðvitað vandi sem er búinn að eiga sér langan aðdraganda,“ segir Alma. Hún segir að brugðist hafi verið við fráflæðisvanda árið 2015 með því að opna Vífilsstaði og fleiri biðrými. „En síðan árið 2016 hefur verið vaxandi þungi og erfiðara að bregðast en það er vissulega búið að reyna margt til að bregðast við.“

„Þetta er í raun alþjóðlegur vandi. Það er alls staðar þessi vandi tengdur mönnun, sérstaklega í hjúkrun. Sömuleiðis eru flestar þjóðir í vanda með þennan vaxandi fjölda aldraðra,“ segir Alma. Hún segir að í raun hafi landlæknisembættið engin úrræði önnur en að gera úttektir og koma með ábendingar. „Það sem er brýnt núna er að efla þjónustu við aldraða og gera það þannig að þeir þurfi ekki að vistast inni á Landspítala og síðan þarf virkilega að taka á vanda í mönnun, sérstaklega í hjúkrun og einnig varðandi sjúkraliða.“

„Núna er einmitt staðan þannig að við þurfum að ráðast í þennan bráðavanda og síðan virkilega horfa til framtíðar, greina vandann og bregðast við,“ segir Alma. Hún segir að gríðarlega brýnt að bregðast við svo fljótt sem verða má, ekki síst vegna fyrirsjáanlegs flensufaraldurs í febrúar. „Sem betur fer bíður fullbúið hjúkrunarheimili úti á Seltjarnarnesi. Það er brýnt að það opni sem allra fyrst og áður en flensan gengur í garð.“