Íslendingar standa sig verr en nágrannalöndin þegar kemur að forvörnum og fræðslu um stafrænt kynferðisofbeldi. Önnur hver stúlka í 10. bekk hefur verið beðin um að senda frá sér ögrandi mynd á netinu og um þriðjungur drengja. Þetta kom fram á málþingi í dag þar sem frumniðurstöður úr greinargerð um vernd gegn stafrænu ofbeldi voru kynntar.
Greinargerðin er unnin fyrir stjórnvöld og stýrihópur um heildstæðar úrbætur í kynferðisofbeldismálum mun byggja tillögur sínar á niðurstöðum hennar. María Rún Bjarnadóttir hefur unnið að greinargerðinni og eru niðurstöður hennar að lögin séu óskýr og dómaframkvæmd óstöðug. Það sé brýnt að huga að því hvernig löggjafinn ætli að vernda friðhelgi einkalífsins í sífellt stafrænni heimi. „Það sem ég er að kalla eftir er að það sé sett sérstakt ákvæði til þess að taka á þessari háttsemi vegna þess að í framkvæmd hefur dómaframkvæmdin sýnt það að það er ekki neitt ákvæði sem tekur fyllilega á þessari háttsemi.“
Stór hluti ungmenna hefur sent ögrandi mynd
Stafrænt kynferðisofbeldi er oft skilgreint sem hvers kyns opinber birting á kynferðislegu myndefni án samþykkis þess sem kemur fram. Samkvæmt rannsókn sem var gerð síðasta vor á grunnskólanemum í áttunda til tíunda bekk um allt land hefur stór hluti ungmenna sent ögrandi mynd eða nektarmynd af sér í gegnum netið. Meirihluti þeirra er sendur af frjálsum vilja en þó er nokkuð algengt að stúlkur sendi slíkar myndir því þeim finnst þær beittar þrýstingi. Næstum önnur hver stúlka í tíunda bekk hefur verið beðin um að senda frá sér ögrandi mynd og um þriðjungur drengja. Í rannsókn sinni hefur María kannað stöðu mála í nágrannalöndum. Hún segir Ísland framarlega í notkun nýrrar tækni en aftarlega þegar kemur að löggjöf, forvörnum og fræðslu. „Regluverkið hefur síðan kannski ekki tekið mið af þessari miklu notkun. Þegar kemur að lagasetningu en ekki síður stefnumótandi aðgerðum eins og forvörnum og fræðslu þá erum við á eftir,“ segir hún.
María segir að íslensk hegningarlög hafi síðast verið uppfærð heildrænt með hliðsjón af tölvum og tækni fyrir rúmum tuttugu árum, árið 1998. „Það er þess vegna sem ég held að sérstaklega varðandi þessi ákvæði varðandi friðhelgi einkalífsins er nauðsynlegt að taka mið af stýrikerfinu sem að almenningur er að nota. Og það er ekki Windows 98 lengur.“