„Á sama hátt og við sættum okkur ekki við að aðrir taki ákvarðanir um líkama okkar eða heimili, þá sættum við okkur heldur ekki við að aðrir taki ákvarðanir um landslagið sem umvefur okkur.“ Guðbjörg R. Jóhannesdóttir, umhverfisheimspekingur og pistlahöfundur Víðsjár, fjallar um gildi landslagsfegurðar, heimili, móðurlíf, landsleg eins og það kemur fyrir í Íslendingasögunum og margt fleira í nýjum pistli.


Guðbjörg R. Jóhannesdóttir skrifar:

Í síðustu tveimur pistlum mínum um landslag og fegurð fjallaði ég um skilning minn á þessum hugtökum. Sá skilningur er í stuttu máli að landslag vísi til umhverfis þegar við skynjum það fagurferðilega – þegar við skynjum það bara til að skynja, og að fegurð vísi til þeirra augnablika þegar við skynjum bara til að skynja í víðara samhengi; þegar við skynjum listaverk, manneskju, atburð, bara til að skynja – eða með öðrum orðum: þegar eitthvað ber fyrir skynjun okkar á þann hátt að öll athygli okkur beinist að því hvernig þetta listaverk, manneskja, atburður lætur okkur líða einmitt núna – hvernig þetta endurómar innra með okkur og leyfir okkur að taka á móti merkingu frekar en að varpa fyrirframákveðinni merkingu á það sem við skynjum eins og við gerum svo oft.

Eins og ég sagði í síðasta pistli: þá felst fegurðin ekki bara í efnislegu forminu (ekki frekar en landslagið) heldur í því hvernig við mætum þessu formi og verðum opin fyrir því að taka á móti merkingu; láta ytri skynjun enduróma innra með okkur og finna merkinguna sem verður til í þessu samspili.

Í dag langar mig að halda áfram að velta fyrir mér merkingu landslagshugtaksins og beina sjónum mínum sérstaklega að tengslum þess við líkamann. Áhugi minn á tengslum landslags og líkama kviknaði helst af tveimur ástæðum. Annars vegar af þeirri staðreynd að í íslensku (og reyndar í fjölmörgum öðrum tungumálum) nefnum við ýmsa hluta náttúrulegs landslags eftir líkamspörtum; við tölum til dæmis um háls, enni, öxl, nef og tungu til að nefna form og fyrirbæri í landslaginu. Hins vegar kviknaði þessi áhugi minn af því að samkvæmt rannsókn landfræðingsins Eddu Waage á notkun og merkingu orðsins landslag er það í fyrstu dæmunum um notkun orðsins, sem finna má í Íslendingasögunum, skrifað landsleg en ekki landslag. Þetta fannst mér sérstaklega áhugavert eftir að ég hitti sænska fyrirbærafræðingin Jonnu Bornemark sem hefur skrifað um fyrirbærafræði meðgöngu, en eins og þið munið kannski fjallar fyrirbærafræðin um það hvernig veruleikinn birtist okkur í reynslu okkar – hvernig hlutina ber fyrir skynjun okkar – fyrirbærafræði meðgöngu fjallar þannig um hvernig meðgönguna ber fyrir skynjun bæði móðurinnar og fóstursins. Í samtali mínu við Jonnu komumst við að því að það er margt líkt með því hvernig hún hugsar um leg móðurinnar og veru fóstursins í leginu og því hvernig ég hugsa um landslag og veru okkar mannfólksins í landslaginu.

Þessar tengingar á milli landslags og líkama vöktu mikla forvitni hjá mér þannig að ég fór að skoða nánar hvernig orðið landsleg var notað og velta fyrir mér hvort það gæti verið gaman eða gagnlegt að bera saman landslag og líkama, eða landsleg og leg kvenlíkamans. Það sem ég komst að þegar ég fór að skoða notkun orðsins landsleg í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans og í þessum dæmum úr Íslendingasögunum var að það vísar bæði til þess hvernig eitthvað liggur og hvernig það liggur fyrir mér. Landsleg vísar til þess hvernig hlutirnir eru – hvernig þeim er háttað; það er eitthvað sem maður kannar og skoðar og veit hvernig er, getur borið saman við annað og það er líka staður þar sem eitthvað getur legið – eins og leg er t.d. staðurinn þar sem fóstrið getur legið, og legstaður er staður þar sem við getum lagst til hinstu hvílu.

Landsleg/lag vísar þannig til heildarskynjunar af því hvernig allt liggur saman innan ákveðinna aðstæðna eða ákveðins rýmis sem hægt er að hafa heildarskynjun af, og hvernig þú finnur fyrir því að tengjast þessum aðstæðum/rými, og þeim ferlum sem skapa það, hvernig þú finnur t.d. möguleika á að eiga heima þarna? Dæmin um notkun orðsins landsleg úr Íslendingasögunum fjalla einmitt mörg um það sem gerist þegar þú kemur á nýjan stað til að finna þér nýtt heima, sérð landið sem liggur fyrir fótum þér og skynjar það í fyrsta sinn, skynjar bara til að skynja hvort þú getir séð þig tengjast þessum stað – dæmi um þetta er t.d. að finna í Eiríkssögu: leiðangursfólkið sigldi inn í fjörð og ákvað að dvelja þar, og þegar þau voru að tína föggur sínar í land og komu fyrst upp á landið segir: „þar var fagrt landsleg; þeir gáðu einskis, útan at kanna landit“. Það er einmitt þetta sem þú gerir þegar þú upplifir stað í fyrsta sinn, þú skynjar bara til að skynja, til að finna hvernig þér líður þarna, hvort þér finnist landslegið fagurt og finnir tengingu við það, hvort þú getir hugsað þér að dvelja þarna, jafnvel gera þetta að þínu „heima”.

Þýski heimspekingurinn Angelika Krebs hefur í skrifum sínum um mikilvægi landslagsfegurðar einmitt fjallað um hugtakið „heimat” í þýsku sem samsvarar orðinu „heima” á íslensku. Krebs telur að það að geta upplifað fallegt landslag sé nauðsynlegur þáttur í góðu mannlegu lífi. Og ástæða þess að hennar mati er að slík upplifun gefur okkur tilfinningu fyrir því að finnast við eiga heima í heiminum. Gildi landslagsfegurðar liggur þannig í því að veita okkur þessa tilfinningu. Og hversvegna er svona mikilvægt að finnast maður eiga heima? Samkvæmt Krebs kennir fallegt landslag og sú tilfinning sem það gefur okkur fyrir því að finnast við eiga heima okkur að dvelja á jörðinni, bera virðingu fyrir henni og þykja vænt um hana. Fallegt landslag býður okkur að festa rætur og finna að við berum umhyggju fyrir landslaginu sem okkar sérstaka heima. Þetta finnst mér áhugavert í ljósi þess hvernig hugtakið landsleg var notað í dæmunum úr Íslendingasögunum en þar fylgja orðinu landsleg oft dómar um fegurð á sama tíma og dæmt er um hvort landið sé staður þar sem maður getur hugsað sér að eiga heima.

Eins og ég ræddi í fyrri pistlum tölum við um fallegt landslag þegar við erum að lýsa augnablikum þar sem við erum að skynja umhverfi bara til að skynja, sem er á vissan hátt eins og að spyrja sjálfa sig: gæti ég átt heima hérna? Dregur þetta fyrirbæri mig til sín? Laðast ég að því? Get ég tengst því? Þessi upplifun sem við höfum af því að velja okkur heimili, okkar „heima” getur líka átt við þegar við erum á tónleikum eða öðrum listviðburðum – þegar ég er á tónleikum eða myndlistarsýningu opna ég mig fyrir listinni, ég kýs að eiga heima í þessu listaverki einmitt núna – veita því athygli eins og ég væri að velja mér heimili. Og hvað gerum við þegar við veljum okkur heimili? Við skoðum innra með okkur hvernig okkur líður, og spyrjum: hvernig líður mér í þessu rými, hvaða möguleika á tengingum get ég ímyndað mér að gera – laðast ég að því eða ekki? Hvaða eiginleika hefur það sem gera að verkum að ég laðast að því eða ekki? Það sem er að ég held mikilvægasti lærdómurinn af þessari orðaskoðun minni, er að landslagið/legið vísar ekki bara til þess hvað er þarna efnislega heldur líka til þess hvernig þú skynjar það, hvort þú myndir vilja eiga heima þarna, það vísar semsagt til þess hvernig þú getur legið innan þessa landslegs og myndað tengsl við það – hvernig þú skynjar þig sem hluta af því.

Það er þessi upplifun af snertingu við heiminn (að við skoðum hann sem mögulegt heima – finnum hvernig við tengjumst honum) sem við notum einmitt orðið landslag til að lýsa. Þetta er snertingin sem við finnum fyrir þegar við skynjum eitthvað á fagurferðilegan hátt – þegar við skynjum bara til að skynja – til að taka á móti því hvernig skynjunin lætur okkur líða.

Kannski getur það hjálpað okkur að skilja þessa snertingu við heiminn að hugleiða aðeins hvað er líkt með veru okkar í heiminum, veru okkar sem líkamar í landslagi og því að vera líkami fljótandi um í vatni eða fóstur fljótandi um í legvatni?

Eins og kollegi minn í fyrirbærafræðinni, Björn Þorsteinsson prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, hefur tekið til orða, er það að vera í heiminum sem skynjandi og hugsandi vera eins og að vera í vatni – áhrif þess hvernig við hreyfum okkur um heiminn bylgjast út í hann á sama tíma og bylgjur sem aðrir og annað hreyfa af stað vagga okkur um og skvettast jafnvel á okkur. Jonna Bornemark bendir á í skrifum sínum um fyrirbærafræði meðgöngu að skynjun fóstursins í leginu er af öðrum karakter en sú skynjun sem er í forgrunni utan legsins, en skynsviðið sem verður til í leginu fylgir okkur þó alltaf. Í leginu er heyrnin t.d. mikilvægasta skilningarvitið og sjónin skiptir minna máli, hreyfingar eru ekki aðskildar í hið innra og hið ytra, þar eru engir sjálfstæðir og aðskildir hlutir til, fóstrið skilur ekki skynjanir sínar þannig að þær tilheyri hlutum heldur eru þær eitt flæði, hver skynjun er samtvinnuð öðrum skynjunum og allar skynjanir hafa áhrif á þær næstu þannig að lög skynjana sem mynda svo mynstur verða til. Hvað geta þessir eiginleikar skynjunar fósturs í legi sagt okkur um skynjun okkar sem líkamar í landslegi?

Eins og orðanotkunin háls, öxl og enni gæti bent til skynjum við landslag og líkama sem eitt og hið sama á svipaðan hátt og fóstrið skynjar legið sem eitt og hið sama og það sjálft. Það að ímynda okkur hvernig það var að vera í legi mæðra okkar gefur okkur tilfinningu fyrir því um hvað er verið að tala þegar við tölum um fyrirbærafræðilegan skilning á því hvernig við erum skynjandi og hugsandi verur í heiminum. Það svið skynjunar sem vaknar fyrst í leginu, samskynjunin þar sem hljóð, snerting og hreyfing eru óaðskilin - er skynsviðið sem er grundvöllur allrar skynjunar - skynsviðið sem hættir aldrei að vera til þó við gleymum að veita því athygli og hlusta á það. Þetta er það sem við skynjum allt flóknara út frá – þess vegna er svo mikilvægt að muna eftir þessu sviði – og við munum einmitt eftir því í fagurferðilegri skynjun, sem er það sem við erum að vísa í þegar við tölum um landslag. Landslag (eða landsleg) vísar til skynjunar okkar af því hvernig við tökum allt inn sem umvefur okkur - hvort það sem við skynjum lætur okkur líða eins og við séum heima – hvort við finnum fyrir tengslum.

Alveg eins og það er ekkert „heima” eða „heim” án líkama, þá er ekkert landslag án líkama – og á sama hátt er enginn líkami án landslags. Þegar við komum úr legi móðurinnar fæðumst við inn í leg landsins. Það einkennir okkur sem líkamsverur að vera alltaf syndandi í landslegi – grundvöllur allrar skynjunar er þetta samskynjandi skynsvið sem er alltaf í gangi en við tökum ekki alltaf eftir. En við tökum eftir því á hinu fagurferðilega augnabliki – og þessvegna eru slík augnablik svo verðmæt því þau geta kennt okkur að skilja hvernig við erum sem líkamlegar tengslaverur alltaf nú þegar í umvefjandi tengslum við umhverfi okkar – við landslagið sem er okkar heima.  Nú veltið þið kannski fyrir ykkur, hversvegna nokkuð af þessu skiptir máli?

Þessi skilningur er að mínu mati mjög mikilvægur í samhengi ákvarðanatöku í umhverfismálum því að það sýnir hversu mikilvægt hugtakið og fyrirbærið landslag er og hversvegna við þurfum að fá að taka þátt í að móta það, rétt eins og við gerum með eigin líkama og heimili. Á sama hátt og við sættum okkur ekki við að aðrir taki ákvarðanir um líkama okkar eða heimili, þá sættum við okkur heldur ekki við að aðrir taki ákvarðanir um landslagið sem umvefur okkur, sem er hluti af líkama okkar, og hluti af okkar „heima“. Þetta er það sem ég tel að þurfi að veita mun meiri athygli í umhverfis- og skipulagsákvörðunum – við þurfum að finna leiðir til þess að taka tillit til þess í ákvörðunum okkar um þróun og breytingar á landslagi að slíkar breytingar hafa ekki bara sjónræn áhrif á hvað við sjáum eða sjáum ekki, heldur líka áhrif á lífsgæði okkar og líðan. Alveg eins og við myndum ekki sætta okkur við að stjórnvöld eða framkvæmdaaðilar kæmu allt í einu inn á heimili okkar og máluðu stofuna rauða án þess að ráðfæra sig við okkur fyrst, sættum við okkur ekki við að þessir aðilar mæti með vinnuvélarnar og fari að umbreyta landslaginu án þess að við höfum nokkuð um það að segja. Við höfum fjölmörg dæmi frá síðustu árum þar sem almenningur hefur einmitt mótmælt því að hafa ekkert að segja t.d. um hvort vegur er lagður í gegnum hraun eða hvort gamall Silfurreynir er felldur til að rýma fyrir nýrri byggingu. Svona dæmi sýna okkur svo skýrt að þegar við tölum um landslag þurfum við líka að tala um lýðræði, en um landslag og lýðræði ætla ég einmitt að fjalla í næsta pistli.