Tuttugu ár eru síðan félag var stofnað um endurreisn Listasafns Samúels Jónssonar í Selárdal. Þýski myndhöggvarinn Gerhard König hefur stýrt framkvæmdum á endurbótum en hann kom fyrst í Selárdal fyrir 21 ári síðan. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan framkvæmdir hófust og nú styttist í að íbúðarhús Samúels, sem hefur verið endurbyggt nánast frá grunni, verður tekið í notkun sem aðstaða fyrir gesti.

Samúel Jónsson sem hefur verið kallaður listamaðurinn með barnshjartað bjó lungann úr ævi sinni í Selárdal. Hann lést 84 ára gamall, árið 1969, en minning hans lifir í dalnum, í listaverkum og byggingum. Þegar Samúel komst á aldur gat hann helgað sig listinni. Hann keypti sement fyrir ellistyrkinn og einn síns liðs bar hann sand úr fjörunni heim að bæ þar sem hann reisti sína eigin draumaveröld.

Byggingar og listaverk Samúels létu mikið á sjá áður en framkvæmdir við endurbætur hófust en ljóst að viðhald verka Samúels verður eilífðarverkefni.