Persónur í Derry Girls eru venjulegt fólk sem reynir að gera sitt besta í erfiðum aðstæðum, en sjónvarpsþættirnir gerast á Norður-Írlandi um miðja síðustu öld þar sem mótmælendur og kaþólikkar börðust um sjálfstæði landsins frá Bretlandi.
Áslaug Torfadóttir skrifar:
Ótal kvikmyndir, sjónvarpsþættir og heimildamyndir hafa verið gerðar um átökin á Norður-Írlandi um miðja síðustu öld þar sem sambandsinnar og þjóðernissinnar, eða mótmælendur og kaþólikkar börðust um sjálfstæði landsins frá Bretlandi. Átökin, eða The Troubles eins og Írar kalla þetta tímabil, voru bæði langvinn og blóðug og mörkuðu djúp spor í sálir þeirra sem upplifðu þau og kynslóðirnar sem komu á eftir. En lífið á átakasvæði þarf líka að ganga sinn vanagang og unglingar þar eru ekkert svo ólíkir unglingum annars staðar eins og Derry Girls nýjasta gamanþáttaröð Channel 4, sem nú er fáanleg á Netflix, sýnir. Derry Girls eru vinsælustu sjónvarpsþættir Írlands síðan mælingar hófust og hafa hlotið mikið lof fyrir handrit og frammistöðu leikara.
Það er handritshöfundurinn og leiksskáldið Lisa McGee sem á heiðurinn af Derry Girls. McGee er sjálf frá Derry þar sem hún ólst upp á tíunda áratugnum, undir lok átakanna. Hún segir að ímynd Derry, og Norður- Írlands alls sé yfirleitt mjög karllæg, fólk sér fyrir sér menn í leðurjökkum með yfirvaraskegg, ofbeldi og átök, sprengjur og spreybrúsa. En hennar upplifun er sú að konurnar hafi frekar farið með völdin og sýnt styrk á þessum tíma enda voru það þær sem voru fjölmennari á vinnumarkaðnum og héldu samfélaginu gangandi, eins og oft vill verða á ólgutímum á meðan karlmennirnir eru uppteknir við annað. McGee vildi heiðra þessar sterku konur en einnig sýna aðra hlið á Norður-Írlandi, hliðina sem hún upplifði sem venjulegur unglingur, þar sem sprengjuhótanir og hermenn skyggðu ekki á stærri vandamál eins og hver væri skotinn í hverjum, prófatarnir og hvernig er best að láta sín persónueinkenni skína í gegn þegar allir eru í eins skólabúningum.
Derry Girls fjallar um hóp fjögurra vinkvenna í Derry og gerist um miðjan tíunda áratuginn. Hin skapandi Erin, dreymna Orla, hortuga Michelle og ábyrgðafulla Clare eru nemendur í kaþólskum stúlknaskóla þar sem þær leitast við að finna sig undir vökulu auga skólastýrunnar Sister Michael. Frændi Michelle, James, bætist svo í hópinn eftir að fjölskyldan telur hann vera öruggari í stúlknaskólanum en drengjaskólanum þar sem James hefur þann ókost að vera Englendingur. Fimmenningarnir lenda svo í alls konar ógöngum sem í stóra samhenginu skipta engu máli, en þegar þú ert táningur virðast endir alls.
Í þessari stuttu sex þátta þáttaröð þarf hópurinn að fást meðal annars við viðkvæmar eldri nunnur, vel hærða presta, unglinga frá Úkraínu sem eru ekki allir þar sem þeir eru séðir, upprisu hunda og pælingar um eilíft líf. Derry stelpurnar eru langt frá því að vera penar kaþólskar skólastúlkur, en þær eru allir sterkir karakterar og eru oft ekkert sérstaklega viðkunnulegar. Þær rífa kjaft, eru sjálfhverfar og sannfærðar um að þær viti allt best, en allir sem einhvern tímann voru unglingar, ættu að geta speglað sig í því. Það er kannski helst James sem heldur sig á mottunni, enda fær hann aldrei að gleyma enskum uppruna sínum sem sjálfkrafa gerir hann að skotspóni brandara og, yfirleitt, góðlátlegrar fyrirlitningar.
Það er hópur ungra leikkvenna sem túlka Derry stelpurnar og eru þær flestar að stíga sín fyrstu skref á þessum vettvangi. Þær eru hver annarri betri og verður gaman að fylgjast með framhaldinu, en tökum er nú lokið á annarri þáttaröð sem verður frumsýnd bráðlega. En Derry Girls eru ekki aðeins lunknir í að sýna okkur flókið tilfinningalíf unglingsstúlkna, heldur verður lífið í bænum alveg ljóslifandi í gegnum fjölskyldur stelpnanna og aðra bæjarbúa. Þar ber helst að nefna mæður Erin og Orlu, sem eru systur þrátt fyrir að vera jafn ólíkar og nótt og dagur og skólastýruna Sister Michael sem er greinilega orðin langþreytt á starfinu og mögulega farin að efast um köllun sína.
Höfundurinn Lisa McGee segir að hún hafi upphaflega ekki ætlað að koma inná pólitískt ástand á Norður-Írlandi, enda er það viðfangsefni sem fæstum finnst eiga heima í gamanþætti. En þegar hún hafi byrjað að skrifa hafi hún ekki getað horft framhjá því hversu stóran þátt átökin hafi átt í hennar daglega lífi, enda Derry ein af þungamiðjum átakanna. Hún valdi því að vefa þau inní þættina, þó að fókusinn sé alltaf á stelpunum og James og þeirra persónulegu vandamálum.
Hún gætir þess þó að gera aldrei grín að átökunum sjálfum eða málefnunum sem verið var að berjast fyrir, heldur frekar því hvernig íbúar Derry, sem þarna höfðu búið við þetta ástand í áratugi, bregðast við hlutum eins og sprengjuhótunum sem valda töfum á umferð og óræðu veggjakroti. En raunveruleikinn á það til að lauma sér inn í bestu fantasíur og í fallegum lokaþætti fáum við að sjá að ekki var alltaf hægt að horfa á björtu hliðina á því sem voru raunveruleg stríðsátök og hryðjuverk. Og það er það sem lyftir Derry Girls á hærra plan en sem bara kvenlæg eftirlíking af The Inbetweeners. Persónur Derry Girls eru allt venjulegt fólk sem reynir að gera sitt besta í erfiðum aðstæðum og minna okkur á mannlegu hliðina á atburðum sem við flest höfum bara lesið um í sögubókunum.