Juan Guaidó er sjarmatröll sem hefur á undraskömmum tíma skotist á stjörnuhimininn í Venesúela og er nú viðurkenndur forseti landsins af flestum ríkjum heims, þar á meðal Íslandi. Hann er hugsjónamaður sem hertist í náttúruhamförum þar sem tugþúsundir létust og sór þess dýran eið að gera gagn fyrir land sitt og þjóð.

Juan Guaidó, leiðtogi stjórnarandstöðunnar í Venesúela er 35 ára verkfræðingur, forseti þingsins frá 5. janúar 2019 og sjálfskipaður forseti landsins frá 23. janúar. Hann er þingmaður Voluntad Popular sem er sósíaldemókratískur miðflokkur sem ræður 14 þingsætum af 167 á þinginu. Mikil mótmæli brutust út í ársbyrjun þegar Nicolás Maduro sór embættiseið sem forseti landsins annað kjörtímabilið í röð. Þingið viðurkennir Maduro ekki sem réttkjörinn forseta en samkvæmt stjórnarskrá landsins skal forseti þingsins taka tímabundið við sem forseti þar til nýjar kosningar fara fram. Á grundvelli þess sór Juan Guaidó embættiseið 23. janúar sem forseti landsins til bráðabirgða. 

Ástandið stappar nærri einræði

Á undanförnum dögum hafa stöðugt fleiri ríki heims viðurkennt Guaidó sem forseta landsins. Flest ríki í Norður- og Suður-Ameríku hafa lýst yfir stuðningi við Guaidó og frestur sem Evrópusambandið gaf Maduro til að boða til kosninga rann út á sunnudag án þess að Maduro yrði við þeirri kröfu. Evrópuríkin hafa eitt af öðru viðurkennt Guaidó sem forseta og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra tilkynnti í sjónvarpsfréttum í gærkvöld að íslensk stjórnvöld styðji Juan Guaidó, leiðtoga stjórnarandstöðunnar í Venesúela. Hann segir að ástandið í Venesúela stappi nærri einræði.

Herinn þarf að velja Maduro eða nauðstadda

Juan Guaidó tilkynnti í gær að þingið héti sakaruppgjöf öllum starfsmönnum lögreglu, hers og stjórnvalda sem aðstoða við að koma lögum og reglu aftur á í landinu að undanskildum þeim sem hafi gerst sekir um glæpi gegn mannkyni. Samhliða kynnti hann áætlun til endurreisnar í landinu með áherslu á þá sem minnst mega sín, neyðaraðstoð frá Bandaríkjunum og fleiri löndum, endurheimt á bankainnistæðum sem frystar hafa verið í Bandaríkjunum og víðar og á skipan nýrra stjórnarerindreka. Guaidó segir að herinn verði að velja á milli þess að styðja Maduro eða koma neyðaraðstoð til nauðstaddra. Sjálfur sætir hann rannsókn yfirvalda, er í farbanni, eignir hans hafa verið frystar og fjölskylda hans sætir ofsóknum. Nicolás Maduro ræður enn flestum stjórnarskrifstofum, ríkisstjórninni og virðist njóta stuðnings hersins. Hann sakar Bandaríkin og Guaidó um tilraun til valdaráns.

Hamfarir urðu tugþúsundum að fjörtjóni

Guaidó er úr millistétt, faðirinn flugmaður og móðirin kennari. Afar hans voru yfirmenn í hernum. Hann ólst upp í strandhéraðinu Vargas og upplifði Vargas-harmleikinn árið 1999 á eigin skinni þar sem rigningar og flóð urðu tugþúsundum að fjörtjóni og þúsundir heimila eyðilögðust. Tíundi hver íbúi héraðsins lét lífið. Hamfarirnar mótuðu Guaidó fyrir lífstíð, skólinn hans hvarf í eðjuhafið og fjölmargir vina hans og vandamanna létu lífið. Hann taldi viðbrögð ríkisstjórnar Hugo Chávez algerlega ófullnægjandi og ákvað að sjálfur þyrfti hann að bretta upp ermar og láta gott af sér leiða fyrir land og þjóð. Hann lauk iðnaðarverkfræði frá kaþólskum háskóla árið 2007 og er að auki með tvær gráður í opinberri stjórnsýslu frá háskólum í Bandaríkjunum og Venesúela. Eiginkona hans er blaðamaðurinn Fabiana Rosales og saman eiga þau eina dóttur.

Sósíalisti eða miðjumaður í pólitík

Guaidó segir að landið hafi færst nær einræði undir Hugo Chávez og enn frekar hjá arftakanum Maduro. Hann var áberandi í mótmælum, meðal annars gegn lokun ýmissa fjölmiðla í landinu. Hann var einn stofnanda stjórnmálaflokksins Voluntad Popular árið 2009. Þetta er sósíalistaflokkur, þótt Guaidó sé sagður miðjumaður í pólitík og Maduro segi hann til hægri í stjórnmálum. Guaidó var krónprinsinn í flokknum undir stjórn Leopoldo López sem er í stofufangelsi. López skipaði Guaidó arftaka sinn fyrr á þessu ári. 

Persónutöfrar og líkt við Obama

Persónutöfrar er það orð sem iðulega er notað til að lýsa Guaidó og honum er þakkað það að hafa sameinað stjórnarandstöðuna í landinu undir sinni forystu. Verkfræðingurinn þykir afar hæfur brúarsmiður sem hefur sameinað stjórnarandstöðuna en leitar ekki síður stuðnings hjá yfirmönnum hersins og stuðningsmönnum Maduros, vesturveldunum, Kína og Rússlandi. Samherjar segja hann auðmjúkan, uppbyggilegan og einlægan baráttumann og stuðningsmenn og andstæðingar hafa oft líkt honum við Barack Obama, ýmist til að lofa hann eða lasta. Margt í orðfæri hans og baráttuaðferðum virðast eiga rætur að rekja til Obama. Aðrir segja hann eins og ungan Kennedy og enn aðrir að hann sé slóttugur hægrimaður og tækifærissinni.

Óskoraður leiðtogi stjórnarandstöðunnar

Guaidó var einn þeirra stjórnmálamanna sem fóru í hungurverkfall til að knýja fram kosningar árið 2015, tveimur árum síðar varð hann formaður fjárlaganefndar þingsins og er nú óskoraður leiðtogi stjórnarandstöðunnar. Í þinginu hefur hann staðið að rannsókn spillingarmála sem tengjast ríkisstjórn Maduros og unnið með alþjóðastofnunum að endurheimt stolinna verðmæta þjóðarinnar á erlendri grundu. Sjálfur er hann rúnum ristur eftir að hafa verið skotinn í hálsinn með gúmmíkúlu í mótmælum árið 2017. Frelsi, jafnrétti og lýðræði eru áberandi stef í ræðuflutningi hans. Hann var kjörinn forseti þingsins í desember, sór embættiseið 5. janúar og lýsti sig forseta til bráðabirgða 23. janúar. Stjórnarandstaðan hefur árum saman verið klofin í herðar niður en hefur sameinast um Juan Guaidó.

Valdaskipti, stöðugleiki og nýjar kosningar 

Guaidó hefur kynnt áætlun um endurreisn landsins í átta liðum þar sem koma á Maduro frá völdum, ná stöðugleika í landinu og boða til nýrra kosninga. Til þess nýtur hann nú stuðnings velflestra ríkja í Suður- og Norður-Ameríku og Evrópu, þar á meðal Íslands.