Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra furðar sig á því að náttúruverndarsamtökum sé líkt við hryðjuverkasamtök í nýrri skýrslu um efnahagsleg áhrif hvalveiða. Hann segir að skoða verði mjög vel þann þátt skýrslunnar sem snýr að vistfræði hafsins og þeim niðurstöðum sem skýrsluhöfundar komast að.
Ný skýrsla Hagfræðistofnunar um efnahagsleg áhrif hvalveiða hefur vakið umræðu og orðið umdeild. Í skýrslunni er fjallað um náttúruverndarsamtök sem beiti hryðjuverkum í baráttu sinni gegn hvalveiðum og vitnað til hryðjuverkalöggjafar í erlendum ríkjum. Þar segir að ef til vill sé tilefni til að íslensk stjórnvöld skoði slíka lagasetningu.
„Í fyrsta lagi furða ég mig á umfjöllun um náttúruverndarsamtök í þessari skýrslu þar sem þeim er líkt við hryðjuverkasamtök. Ég skil ekki alveg hvaða erindi það á inn í þessa skýrslu, hvað er þar að baki,“ sagði Guðmundur Ingi að loknum ríkisstjórnarfundi í morgun. „Í öðru lagi tel ég að það þurfi að skoða mjög vel þennan þátt sem snýr að vistfræði hafsins. Þegar dregnar eru þær ályktanir að með því að veiða fleiri hvali þá fjölgi fiskum í sjónum og sú ályktun dregin að þar sé nokkurn veginn beint samhengi á milli. Þó svo um væri að ræða samband þar á milli er ekki tekið tillit til þess kostnaðar sem myndi hljótast af því að fara út í auknar hvalveiðar, til dæmis vegna orðspors Íslands.“