Verkjalyfið Oxycontin er talið bera mikla ábyrgð á ópíóíðafaraldrinum sem hófst í Bandaríkjunum fyrir nokkrum árum og hefur síðan breiðst út um heiminn, meðal annars til Íslands. Lyfið var auglýst grimmt og á misvísandi hátt, en fjölskyldan sem setti það á markað er í dag meðal þeirra ríkustu í Bandaríkjunum.
Í ljósi sögunnar á Rás 1 fjallar um sögu Oxycontins og upphaf ópíóíðafaraldursins vestanhafs. Hlustið á allan þáttinn í spilaranum hér að ofan.
Endurkoma ópíóíðalyfja
Lyfjafyrirtækið Purdue Pharma setti Oxycontin á markað árið 1996. Lyfið er unnið úr óxýkódóni, sem er sterkur ópíóíði, skyldur ópíumi og morfíni.
Á þessum tíma veigruðu margir læknar sér við að skrifa upp á morfínskyld lyf við sársauka, þar sem þó þau séu mjög áhrifarík geta þau verið mjög ávanabindandi.
Morfínlyf voru því yfirleitt ekki gefin nema langtleiddum sjúklingum sem glímdu við mikla verki, til að mynda krabbameinssjúkum.
Undralausn við öllum sársauka
En Purdue Pharma kynnti Oxycontin sem undralausn við þrálátum sársauka af ýmsu tagi — svo sem bakverkjum, gigt og mígreni. Bæði var það ógnarsterkt og tímastillt þannig að það virkaði í margar klukkustundir.
Þá var fullyrt að það væri alls ekki ávanabindandi nema í undantekningartilvikum, og fíklar gætu ekki misnotað það eins og önnur morfínskyld lyf.
Fordæmalaus söluherferð
Lyfjaeftirlit Bandaríkjanna féllst á þessar fullyrðingar án sérstakra prófana og Purdue réðist í einhverra umfangsmestu og dýrustu markaðsherferð lyfjasögunnar til að kynna Oxycontin.
Það var auglýst í læknaritum, her Oxycontin-sölumanna hringdi og heimsótti lækna linnulaust, og læknum og lyfjafræðingum var borgað fyrir að tala máli lyfsins á ráðstefnum.
Ekkert mál að misnota
Ekki leið á löngu frá því að Oxycontin kom á markað og ljóst var að ekki einungis var það álíka ávanabindandi og önnur ópíóíðalyf heldur var auðvelt að misnota það.
Með því að mylja niður pillurnar og taka duftið í nefið er hægt að fá allan ógnarkraft lyfsins yfir sig á örskotsstundu. Eða leysa duftið upp og sprauta sig.
Oxycontin-alda eirði engu
„Oxycontin-faraldur“ geisaði fljótlega á fátækustu svæðum Bandaríkjanna, eins og í Appalasíufjöllum, þar sem Purdue Pharma hafði auglýst lyfið sérstaklega grimmt.
Auðvelt varð að nálgast Oxycontin bæði hjá uppáskriftaglöðum læknum eða á svörtum markaði. Ótal nýir fíklar urðu til og Oxycontin ruddi einnig svo að segja flestum öðrum vímuefnum af markaði.
Þetta varð svo síðar til þess að eftirspurn eftir öðrum ópíóíðum jókst, bæði sterkum lyfseðilsskyldum verkjalyfjum eins og fentanyli og svo eiturlyfi sem hafði ekki verið sérlega áberandi í Bandaríkjunum undanfarin ár, en hefur nú komið aftur af fullum krafti: heróín.
Milljónir í sektir
Fyrirtækið Purdue Pharma fékk veður af þessum vandamálum snemma en gerði lítið sem ekkert, og hélt lengi áfram að auglýsa lyfið af eins miklum krafti, enda græddu eigendur fyrirtækisins margmilljarða á lyfinu.
Á síðustu árum hefur fyrirtækið verið lögsótt ótal sinnum fyrir ósannar fullyrðingar og misvísandi markaðsetningu á Oxycontin en ætíð samið áður en til réttarhalda kemur.
Árið 2007 borgaði Purdue 634 milljón dollara í sekt eftir rannsókn dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna á lyfinu. Það var þó dropi í hagnaðarhafinu sem Oxycontin hafði þá skapað Purdue.
Vellauðugir listunnendur
Purdue Pharma er fjölskyldufyrirtæki. Þrír læknislærðir bræður, Arthur, Raymond og Mortimer Sackler, keyptu það á sjötta áratugnum og byggðu upp, en Arthur Sackler var auk þess brautryðjandi á sviði lyfjaauglýsinga.
Afkomendur bræðranna reka Purdue enn og Sackler-fjölskyldan er meðal ríkustu fjölskyldna Bandaríkjanna. Fjölskyldumeðlimir hafa um árabil gefið ríkulega til ýmissa góðgerðarmála, safna og stofnana.
Þannig má finna Sackler-álmu í Metropolitan-listasafninu í New York og Sackler-gallerí á Smithsonian í Washington.
En fjölskyldan hefur lítið sem ekkert viljað tjá sig um uppsprettu auðs síns, Oxycontin, og afleiðingar þess.
Hlustið á allan þáttinn í spilaranum hér að ofan.
Í ljósi sögunnar er á dagskrá Rásar 1 á föstudagsmorgnum klukkan 09:05 og endurfluttur á laugardögum klukkan 18:10. Finna má fyrri þætti á síðu þáttarins og í hlaðvarpi RÚV.