Þingflokkur Pírata hefur undirbúið tillögu að vantraustsályktun á dómsmálráðherra ef hún víkur ekki úr embætti og bíður öðrum þingmönnum að flytja tillöguna með þeim. Formaður Samfylkingarinnar segir óumflýjanlegt að lögð verði fram vantrauststillaga á ráðherrann ef ríkisstjórnin leysir þá stöðu ekki sjálf.
Ítarlega var fjallað um Landsréttarmálið í kvöldfréttum, niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu um að ólöglega hefði verið skipað í dóminn, óvissu um stöðu Landsréttar og viðbrögð við dómnum. Umfjöllunina í heild má sjá hér að ofan.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir, formaður Dómarafélags Íslands, sagði að niðurstaðan hefði ekki komið sér mjög á óvart í ljósi undiröldunnar í Evrópu. Hún sagði að óvissa hefði skapast sem verði að leysa sem fyrst.
Fram kom að erfiðlega hefur gengið að fá viðbrögð frá stjórnarliðum við málinu, fyrir utan það að dómsmálaráðherra og formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins hafa lýst efasemdum um dóminn.
Aðspurður hvað hann læsi í þetta sagði Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar: „Ég held að það hljóti bara að vera merki um að ríkisstjórnin sé að skoða vandlega viðbrögðin og ég held að það sé ekki vanþörf á því.“ Hann sagði að það væri ekki léttvægt að fá á sig dóm sem þennan. Þetta væri alvarlegt fyrir ráðherra sem hefði á sínum tíma sagst taka alla ábyrgð á málinu. Hún hefði lýst því yfir að hún hefði sinn rannsóknarskyldu sinni af kostgæfni og fullvissað þingið um að skipan dómara væri í lagi. Þorsteinn var ráðherra í stjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar þegar dómarar í Landsrétti voru skipaðir.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði mikilvægt að Alþingi greiddi sem fyrstu úr þeirri óvissu sem væri komin upp. „Það verður ekki gert með starfandi dómsmálaráðherra. Ef ríkisstjórnin leysir það mál ekki sjálf er óumflýjanlegt að við leggjum fram vantraust á ráðherra.“
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingflokksformaður Pírata, sagði að dómurinn væri grafalvarlegur áfellisdómur, sérstaklega yfir embættisgjörðum Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra. Hún sagði að þingmenn Pírata hefðu undirbúið vantrauststillögu og boðið öðrum þingmönnum að vera með. Það væri þó spurning um tíma hvenær tillagan yrði lögð fram, ráðherrann fengi tíma til að íhuga stöðu sína.