Andi rússnesks arkitektúrs frá upphafi 20. aldar svífur yfir vötnum á sýningu Rósu Gísladóttur, Medium of Matter, sem opnuð var í Berg Contemporary við Klapparstíg á dögunum.
Medium of matter er skúlptúrasýning sem samanstendur af annars vegar massívum skúlptúrum úr gifsi, sem Rósa hefur getið sér gott orð fyrir, og léttari verkum úr timbri. „Mér finnst þetta mynda eina heild,“ segir Rósa. „Ég hef alltaf haft áhuga á arkitektúr, strúktúrum, symmetríu, klassískum arkitektúr og gömlum borgum en líka Rússlandi og konstrúktívismanum sem var við lýði í Rússlandi í byrjun 20. aldarinnar. Þá voru þeir í fararbroddi í höggmyndalist og arkittektúr, jafnvel framan en það sem var að gerast í Evrópu á þeim tíma.“
Hryggjarstykkið í sýningunni eru tveir voldugir skúlptúrar sem nefnast Umsnúinn spírall I og II. Þeir eru innblásnir af óbyggðum turni rússneska arkitektsins Vladimir Tatlin sem átti að rísa í Sankti Pétursborg, gerður úr járni með rustalegum frágangi grófra bolta og logsoðinna samsetninga.
„Aftur á móti er minn turn úr trésköftum, fínlega gerður, léttur, hann er svolítið andstaða og efnin sem ég er að nota eru andstaða við konstrúktívismann. Þessi verk eru gegnsæ enda snýst þessi sýning líka um áhuga á birtu og birtuvarpi. Það er líka áhugavert að sjá massívu verkin mín samanborið þau léttu, hvaða áhrif þau hafa út í rýmið á mismunandi hátt. Það er gaman að sýna þetta á þessum árstíma. Þegar það er svona dimmt þá taka þau svo vel við ljósi. Í rauninni er skrítið hvernig tvö verk sem eru ekki mjög stór geta fyllt heilan sal með áhrifum sínum.“
Rætt var við Rósu í Menningunni. Horfa má á innslagið hér að ofan.