Þeir sem eru lengst til vinstri í stjórnmálum eru á móti ESB aðild, mest af gömlum vana. Þeir sem eru lengst til hægri vegna þess að þeir óttast allt sem útlent er, sagði Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar
Bildt ræddi um afstöðu Sænsku demókratanna til ESB aðildar og sænska Vinstriflokksins, sem áður var flokkur sænskra kommúnista. Bildt er á Íslandi þar eð Svíar eru nú í forsæti Norðurskautsráðsins sem hélt þing sitt hér. Hann átti viðræður við Össur Skarphéðinsson um framtíðarþróun á norðurslóðum og nauðsyn þess að norðurskautsríkin yrðu viðbúin auknum umsvifum þar og áhuga annarra þjóða á því sem þar gerist. Bildt ræddi og um umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu sem hann styður og fyrirhugaðan viðskiptasamning Evrópusambandsins og Bandaríkjanna og áhrif þess samnings á Ísland. Svíar gengu í Evrópusambandið 1995 eftir alvarlega efnahagskreppu. Í aðdraganda inngöngu Svía sýndu skoðanakannanir jafnan að færri væru fylgjandi aðild en andvígir. Í þjóðaratkvæðagreiðslunni varð svo mjótt á mununum, rétt um fimmtíu og tvö prósent sögðu já. Carl Bildt segir að það sé eðlilegt að útkoman úr skoðanakönnunum sé neikvæð. Það stafi af því að öll umræða um aðild sé á gagnrýnum nótum, mest sé talað um það sem kunni að verða erfitt eða miður hagstætt við það að ganga í sambandið, ekkert sé rætt um það sem blasi við að verði umsóknarlandinu til hagsældar. Nú eru sjötíu og þrjú prósent Svía hlynnt ESB-aðild, segir Carl Bildt.