Ný könnun leiðir í ljós að tæplega helmingur þjóðarinnar vill að Alþingi samþykki Icesave samninginn - ríflega þriðjungur er því andvígur. Tæp sautján prósent segjast þekkja innihald samninganna vel eða að öllu leyti. Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Capacent Gallup.
Tæplega 1200 manns af öllu landinu voru spurðir seinnipartinn í desember hvort Alþingi ætti að samþykkja Icesave-samningana og hversu vel þeir þekktu samningana. Hátt í helmingur aðspurðra, rúmlega 47% sagðist hlynntur því að Alþingi samþykkti samningana, á meðan rúmlega 35% voru því andvíg. Um 17% voru hvorki hlynnt né andvíg. Hvað varðar þekkingu á innihaldi samninganna, þá sögðu næstum sex af hverjum tíu að þeir þekktu þá illa eða alls ekki. Tæp 17% sagðist hins vegar þekkja innihald samninganna vel eða að öllu leyti. Mun fleiri eru hlynntir samþykkt samningana meðal þeirra sem styðja ríkisstjórnina, eða rúmlega 78% prósent, á móti tæplega 30% þeirra sem styðja hana ekki.