Úlfur Hansson tónskáld vann í dag til verðlauna á Alþjóðlega tónskáldaþinginu sem haldið er í Prag að þessu sinni. Úlfur vann fyrstu verðlaun í flokki tónskálda 3o ára og yngri.

Þetta er í fyrsta sinn sem íslenskt tónskáld vinnur til verðlauna á þinginu.  Verðlaunin fékk Úlfur fyrir verkið So very strange, sem hann lék meðal annars á hljóðfærið Ohm sem hann hannaði og smíðaði sjálfur, en verkið var framlag Ríkisútvarpsins. 

Ísland hefur átt tónskáld í svokölluðum heiðursflokki keppninnar en það að lenda á þeim topp 10 lista leiðir af sér spilun á útvarpsstöðvum út um allan heim. Má þar nefna tónskáld á borð við Þuríði Jónsdóttur, Hauk Tómasson, Huga Guðmundsson, Atla Ingólfsson og síðast í fyrra var það María Huld Markan Sigfúsdóttir sem lenti í heiðursflokki.

Vettvangur til að kynna ný verk og tónskáld

Tónskáldaþingið var fyrst haldið árið 1954. Þá tóku fjórar útvarpsstöðvar þátt í þinginu en í ár voru þátttökulöndin hátt í fjörutíu. Tónskáldaþingið er fyrst og fremst vettvangur til kynningar á nýjum verkum og ungum tónskáldum sem talin eru eiga erindi á alþjóðavísu, en þingið er einnig keppni, þar sem þátttakendur velja áhugaverðustu verkin með sérstakri stigagjöf.

Þingið er skipulagt af Alþjóðatónlistarráðinu (International Music Council) með stuðningi UNESCO, vísinda-, menntunar- og menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Tónskáldaþingið er einn öflugasti vettvangur til kynningar á íslenskri samtímatónlist en á þinginu hittast fulltrúar fjölmargra útvarpsstöðva frá öllum heimshornum, kynna tónverk frá sínu heimalandi og skiptast á upptökum af nýjum tónverkum.