Útflutningur á sauðfé á fæti gæti hafist aftur eftir ríflega hundrað ára hlé. Tyrkir hafa áhuga á að kaupa íslensk lömb til slátrunar á Tyrklandi.

Íslenskir sauðfjárbændur höfðu drjúgar tekjur af útflutningi lifandi sauðfjár til Bretlands, til slátrunar þar, frá því á 7. áratug 19. aldar til ársins 1896 þegar bann var sett við því að flytja þangað lifandi sláturfé. Bretarnir greiddu fyrir sauðféð í gulli og sáu þá margir íslenskir bændur peninga í fyrsta sinni.

Nú er sagan hugsanlega að endurtaka sig en nú eru það Tyrkir sem hafa áhuga á því að flytja inn sláturfé frá Íslandi. Í Tyrklandi er slátrað 62 milljónum dilka á ári og er sauðfjárslátrun hvergi meiri í heiminum, nema í Kína. Tyrkneskir kjötkaupmenn komu hingað til lands í síðustu viku og hafa þeir áhuga á að flytja út lambakjöt en enn meiri áhuga á að lömbum á fæti. Ef til kemur verður sauðféð flutt út í skipum sem taka frá 4 til 18 þúsund lömb í ferð. Aðbúnaður um borð er allgóður því lömbin eru fóðruð á nýsprottnu grasi, sem ræktað er í gámum, og hafa greiðan aðgang að fersku vatni.

Ekki hefur verið látið reyna á hvort sauðaútflutingur frá Íslandi stenst allar reglugerðir en væntanlega mun það skýrast innan tíðar. Það liggur heldur ekki fyrir hversu hátt verð Tyrkir eru tilbúnir að greiða fyrir fé á fæti.

Áhugi erlendra kaupenda á íslensku lambakjöti hefur aldrei verið jafn mikill en íslenskar afurðastöðvar fá fjölda fyrirspurna í hverri viku.