Tyrkir mótmæla í Amsterdam

13.03.2017 - 01:33
epa05843998 Dutch Police clear the streets from demonstrators near the Turkish consulate in Rotterdam, the Netherlands, 11 March 2017 (issued 12 March 2017). Riots errupted after the Turkish Family Minister Fatma Betul Sayan Kaya was barred by police from
Mikil reiði er meðal Tyrkja í Hollandi vegna framgöngu hollenskra yfirvalda gagnvart tyrkneskum yfirvöldum og útsendurum þeirra. Þessi mynd var tekin í Rotterdam á laugardag, nærri aðalræðisskrifstofu Tyrkja í borginni.  Mynd: EPA  -  ANP
Óeirðalögregla beitti háþrýstidælum til að leysa upp mótmæli nokkur hundruð Tyrkja og tyrkneskættaðra Hollendinga í Amsterdam í kvöld. Borgarstjórinn, Eberhard van der Laan, fór fram á að bundinn yrði endi á mótmælin á tólfta tímanum í kvöld, á þeim forsendum að mótmælendur röskuðu almannaró og sköpuðu hættu í umferðinni.

Um 250 manns söfnuðust saman á torgi í miðborginni síðdegis í dag til að mótmæla framgöngu hollenskra stjórnvalda gagnvart Tyrklandsstjórn og útsendurum hennar. Ekki var sótt um leyfi fyrir mótmælunum en þau voru látin afskiptalaus lengst af, enda fóru þau friðsamlega fram.

Þegar halla tók að kvöldi fjölgaði í hópi mótmælenda og og reiði og órói fóru vaxandi. Mótmælendur stöðvuðu umferð um aðliggjandi götur, flugeldum var skotið og kastað og hávaði fór stöðugt vaxandi. Þegar ítrekuð tilmæli lögreglu um að yfirgefa torgið voru hunsuð var gripið til þess ráðs að kalla óeirðalögregluna á vettvang. Sex voru handteknir í tengslum við mótmælin, fyrir ýmsar sakir. Óeirðalögregla var einnig kölluð til í Rotterdam á laugardag, til að leysa upp mótmæli ríflega 1.000 Tyrkja þar í borg.