Í barnalíkkistu sem grafin var upp úr Víkurgarði í miðbæ Reykjavíkur fyrir tveimur árum voru líkamsleifar sjö til átta einstaklinga. Gríðarleg röskun hefur orðið á svæðinu í gegnum tíðina og eru dæmi um að hauskúpur hafi horfið og beinum verið hrúgað saman.

Átta einstaklingar en fimm hauskúpur

Þegar ákveðið var að reisa hótel á bílastæðinu fyrir framan Landsímahúsið var Vala Garðarsdóttir fornleifafræðingur fengin til að kanna hvort þar væru fornminjar.  Samkvæmt lögum um menningarminjar (16. gr.) verður að  slík rannsókn að fara fram áður en framkvæmdir hefjast.
 
„Það voru 5 höfuðkúpur þó svo einstaklingarnir hafi verið 8, þannig að það vantaði töluvert upp á til að geta greint heildsstætt en virðist hafa verið 5 karlmenn og einn unglingur sem er erfitt að kyngreina og eitt barn.“
 
„Hvers vegna voru þau öll í kistunni, er það vitað? Sko, ég gæti trúað því, miðað við að sums staðar var búið að brjóta upp grafir til að rýma fyrir lögnum eða húsgrunnum eða öðru, að það hafi þá verið fluttur hluti af eldri líkamsleifum yfir í eina kistu. Verið að sameina.“

Tíu ef ekki fleiri hús í Víkugarði

Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur, segir að tíu ef ekki fleiri byggingar hafi verið reistar í Víkurgarði síðan hann var aflagður. 

Víkurgarður var kirkjugarður til ársins 1838. Eftir það voru fjölmargar byggingar reistar í garðinum. Þar á meðal var timburhús sem hýsti Reykjavíkurapótek, bakhús og  neðanjarðarvörugeymsla , einkagarður landlæknisins og síðar garður bæjarfógetans. Þrír til fjórir  braggar voru reistir á stríðsárunum og tvær viðbyggingar við Landsímahúsið.    

Hauskúpur út um allt 

Mikið af beinum hefur komið upp við framkvæmdir á svæðinu í gegnum tíðina. Sum hafa horfið en önnur eru geymd á Þjóðminjasafninu. Guðjón segir að árið 1960 lét Landsíminn grafa skurð í gegnum garðinn. 

„Það voru bara bein og hauskúpur út um allt eins og hráviði. Það var ekkert verið neitt að fara með neinum teskeiðum í það.“

Skurðurinn varð að blaðamáli því einhverjir stálu hauskúpum úr honum (timarit.is: Alþýðublaðið 10. júní 1960, Visir 11.júní 1960 )

„Það var dálítið eftirsótt það voru t.d. læknanemar vildu gjarnan eiga hauskúpur og þær gengu kaupum og sölum jafnvel.“

Engar líkamsleifar undir framkvæmdasvæði

Beinagrindur sem voru undir framkvæmdasvæðinu voru fjarlægðar í fornleifauppgreftrinum 2016 og eru engar líkamsleifar þar lengur. 

Hins vegar eru bein ennþá undir hellunum í Fógetagarðinum og jafnvel undir gangstéttunum og götunni.  „Þeir liggja þarna í garðinum ef beinin hafa ekki horfið. Það eru þarna leifar af forfeðrum okkar alveg í 30 kynslóðir sennilega.“

Er vitað hvað þau liggja djúpt beinin í Fógetagarðinum?  „Sko þetta er ekki mjög þykkur jarðvegurinn þarna. Það var aldrei hægt að grafa mjög djúpt niður held ég grafirnar. Það eru glöp bein og legsteinar þarna undir sem að kæmu upp væri farið væri að leita að þeim.“

Sem dæmi um röskunina á svæðinu nefnir Guðjón breikkun Kirkjustrætis. 

„Kirkjustræti var breikkað og þannig að það eru bein undir gangstéttunum í Kirkjustræti og kannski út í götuna líka.“