Mikael Torfason blaðamaður og rithöfundur segir í nýrri bók frá fyrstu árum ævi sinnar og lífi fjölskyldunnar á þeim tíma, um miðjan áttunda áratug síðustu aldar. Þar segir meðal annars frá áhrifum sem trúarhreyfingin Vottar Jehóva hafði á líf fjölskyldunnar og alvarlegum veikindum Mikaels.
Foreldrar Mikaels giftast ung og verða fljótlega meðlimir í Vottum Jehóva sem hefur meðal annars þær afleiðingar að honum er neitað um blóðgjöf að undirlagi föðurins þegar hann greinist nýfæddur með alvarlegan sjúkdóm, en samkvæmt kenningum safnaðarins er eiginmaðurinn sá sem völdin hefur í hjónabandi og ber að taka allar ákvarðanir um velferð fjölskyldunnar.
Um þetta og ýmislegt fleira er fjallað í bókinni Týnd í Paradís, sem er ekki hefðbundin ævisaga, höfundurinn styðst fyrst og fremst við framburð annarra, enda barnungur á því tímabili sem lýst er í bókinni, og notar bæði aðferðir skáldskaparins og blaðamennskunnar til að skoða fjölskyldulíf og tíðaranda.Týnd í Paradís er fyrsti hluti væntanlegs þríleiks sem byggir á ævi Mikaels og verða seinni bindin unnin með svipuðum hætti, hann sagði frá bókinni og vinnuaðferðum sínum í Víðsjá.