Tvöþúsund í litahlaupi á Akureyri

08.07.2017 - 17:22
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Ágúst Ólafsson
Um tvöþúsund manns tóku þátt í litahlaupinu, The Color Run, á Akureyri í dag. Svo margir hafa aldrei tekið þátt í hlaupi á Akureyri, en þetta er í fyrsta skipti sem litahlaupið er haldið þar.

Þátttakendur voru ræstir við Akureyrarvöll og eftir rækilega upphitun og púðurkast hlupu þeir í gegnum miðbæinn og þaðan um gamla innbæinn og inn undir Skautahöll og aftur til baka.

Það var bros á hverju andliti og fólk komið víða að til að hlaupa sér til skemmtunar. Enda engin tímataka í litahlaupinu heldur er markmiðið að njóta þessarar litríku upplifunar.

Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri The Color Run, segir allt hafa heppnast eins og best verður á kosið og gaman væri að halda hlaupið aftur á Akureyri. „Það er samt ekkert ákveðið og verður eiginlega bara að koma í ljós,“ segir hann.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Ágúst Ólafsson
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Ágúst Ólafsson
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV  -  Ágúst Ólafsson
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV