Með gat á hjartanu í laginu eins og Guð er nýtt íslenskt heimildarverk eftir Jón Atla Jónsson um óhugnalegt ofbeldi sem margir nemendur Landakotsskóla voru beittir frá árinu 1962 alveg fram til 1998.
Verkið er á vegum útvarpsleikhúss RÚV en ákveðið var að taka það upp á Nýja sviði Borgarleikhússins fyrir framan áhorfendur í kvöld klukkan 20:00. Leikstjóri verksins, Egill Heiðar Anton Pálsson, segir vandasamt að koma verki eins og þessu á koppinn, en það er bæði byggt á rannsóknarskýrslu kaþólsku kirkjunnar frá 2012 og viðtölum leikskáldsins við þolendur. „Þegar maður vinnur með heimildarverk þá er það ákveðinn hreinleiki sem þarf að vera til staðar og að ná honum í leik hefur verið glíma fyrir okkur,“ segir Egill Heiðar í samtali við Síðdegisútvarpið. „Því að hvernig fólk talar upp úr minningum, tungutakið, það er eins og maður myndi kalla subbulegt. Það er ekki svona fallegt ritað mál, og það tekur leikarana smá tíma að komast utan um það horn á byggingunni, að ná aftur að tala eðlilega.“
Það eru þau Þórunn Arna, Arnar Dan og Halldór Gylfason sem leika í verkinu sem var upprunalega hugsað sem útvarpsleikrit. „En svo var ákveðið að flyta stúdíóið niður á Nýja svið Borgarleikhússins, þannig það er leikmynd í útvarpsleikriti og verkið tekið upp með áhorfendum,“ segir Egill. Þegar skýrsla kirkjunnar kom út olli hún miklum titringi í samfélaginu enda var í henni lýst kynferðislegu, líkamlegu og andlegu ofbeldi sem hafði verið beitt á að því virtist kerfisbundinn hátt innan skólans í marga áratugi.
Egill Heiðar segir að þöggunin um ofbeldið hafi verið margbrotin. „Nemendur þagga eigin mál. Af hálfu skólans eru þögguð mál á þeim tíma sem kvartanir berast, og svo þöggun kaþólsku kirkjunnar. Kvörtunarmál sem bárust á sínum tíma hverfa þegar rannsóknarnefndin fer að spyrjast fyrir um þau.“ Hann og Jón Atli lögðu upp með það að leita svara hvernig svona nokkuð gæti átt sér stað og skoðuðu meðal annars kenningar um meðvirkni. „Þegar þú ert tekinn sem gísl leysast úr læðingi meðvirknisfaktorar, og í svona hópum eins og í Landakotsskóla getur það sama átt sér stað.“ Þá hafi komið í ljós í viðtölunum að skömm fórnarlambanna hafi verið yfirgengileg. „Skömmin verður tvöföld, bæði að þú skulir hafa orðið fyrir einhverju sem var skammarlegt, og svo að þú skulir ekki hafa sagt frá því.“
Með gat á hjartanu í laginu eins og Guð verður sýnt á nýja sviðið Borgaleikhússins þriðjudagskvöldið 23. október klukkan 20:00. Eftir að verkinu lýkur verða umræður um innihald þess og málin sem þar er fjallað um. Aðgangur er öllum opinn og ókeypis meðan húsrúm leyfir en hægt er að panta miða hér.