Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu vinna nú að nýju útboði vegna Ferðaþjónustu fatlaðra. Ekki hefur enn verið útkljáð hvernig kostnaði verður skipt milli sveitarfélaganna. Þá er stefnt að því að með nýju útboði náist að lækka heildarkostnaðinn, sem nam um 1,7 milljörðum króna í fyrra. Sveitarfélögin sameinuðust um þessa þjónustu 2015 en til að byrja með gekk ekki mjög vel.
- Þroskahjálp og Sjálfsbjörg hafa borist margar ábendingar og kvartanir um að ferðaþjónusta fatlaðra sé í lamasessi. Formaður Þroskahjálpar segir að nýtt tölvukerfi þjónustunnar hljóti að vera forritað vitlaust svo illa virki það.
-16 ára stúlka með þroskahömlun og einhverfu var skilin ein eftir fyrir utan heimili sitt vegna mistaka ferðaþjónustu fatlaðra. Móður hennar var verulega brugðið.
- Erfiðleikar í ferðaþjónustu fatlaðra hafa komið upp hjá öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu eftir að þau tóku að nýta sér þjónustu Strætó.
Aksturinn kominn í lag
Þetta var brot af þeim fréttum sem sagðar voru í byrjun árs 2015 um mistök sem áttu sér stað. Þetta voru byrjunarörðugleikar. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, utan Kópavogs, stóðu saman að útboði 2014 og akstur hófst samkvæmt því í byrjun árs 2015. Strætó stóð að útboðinu. Erlendur Pálsson, sviðstjóri ferðaþjónustu hjá Strætó, segir mjög margar ástæður fyrir því hve þetta gekk brösuglega í upphafi. Skortur hafi verið á upplýsingum um fjölda ferða og um ýmsar sérþarfir. Of mikið traust hafi líka verið lagt á tölvukerfið sem átti að raða niður ferðum.
„Það var mikil starfsmannavelta hjá bílstjórum og vanþekking þar. Og fjöldinn allur af röð mistaka sem urðu. Ein mistök leiddu af sér önnur mistök. Þannig að það tók smá tíma að koma þessu í gott horf," segir Erlendur.
Nú eru bráðum liðin fimm ár og til stendur að bjóða út aksturinn á nýjan leik. Farnar eru allt að tvö þúsund ferðir á dag, sem 80 bílar sinna, auk leigubíla. Erlendur segir að reynsla sé komin á þessa þjónustu. Stundvísi bílanna sé í lagi. Að sjálfsögðu berist athugasemdir. Þær séu kannski 25 til 30 á mánuði sem sé í raun lítið miðað við um 40 þúsund ferðir. Hann segir að hverri athugasemd sé tekið alvarlega. Flestar snúist þær um að bíllinn hafi ekki komið. Misskilningur hafi þá verið um hvar bíllinn átti að stoppa. Upp hafi komið alvarlegri tilfelli þar sem fólk hafi til dæmis dottið í bílunum og á þeim málum hafi verið tekið.
„Það er fólk á öllum endum. Það eru bílstjórar, farþegar og aðstandendur. Það eru alls staðar einhverjir möguleikar á mistökum eða slysum. 40 þúsund ferðir á mánuði. Það er ekki hægt að ætlast til þess ekkert komi fyrir, því miður. Slysin hafa verið fá en það hefur verið tekið á þeim. Við tökum hvert tilvik alvarlega hvers lítil sem þau eru," segir Erlendur.
2,7 milljónir kílómetra
Með útboði á sínum tíma var stefnt að því að aksturkostnaður sveitarfélaga sem þau höfðu sjálf séð um myndi lækka. Sú varð ekki alveg raunin. Kostaður hefur aukist hjá sumum sveitarfélögum en lækkað hjá öðrum, til dæmis hjá Reykjavíkurborg. Heildaraksturskostnaðurinn í fyrra nam tæpum 1,6 milljörðum króna. Við þessa tölu bætist kostnaður vegna þjónustuvers. Ekið er með fatlað fólk og aldraða og jafnframt er skólaakstri fyrir fötluð börn sinnt. Skólaaksturinn er um fjórðungur af heildarkostnaðinum. Meðalkostnaður á einstakling eru rúmar 80 þúsund krónur á mánuði og hver ferð kostaði í fyrra um 3.500. Og samtals voru eknir tæplega 2,7 milljónir kílómetra í fyrra. Það svarar til þess að hringvegurinn, þjóðvegur 1 hafi verið ekinn yfir tvö þúsund sinnum. Að jafnaði er ekið með yfir 1300 fatlaða einstaklinga í hverjum mánuði og um 240 vegna skólagöngu. Bílunum er skipt í A og B bíla og að auki eru farnar um 200 leigubílaferðir á dag.
„Ég held að þetta hafa verið hárrétt leið miðað við þær upplýsingar sem voru til staðar á þeim tíma. Það var mikil óvissa með ferðafjölda, þjónustutíma og fleira. Óvissan var svo mikil að það varð að hafa þessa B bíla eða tilfallandi bíla," segir Erlendur
Hætt með B bílana
Það aka 80 bílar af stað á hverjum morgni, að minnsta kosti alla virka daga. Þrjátíu þeirra eru sérmerktir og í strætó-litunum. Fimmtíu svokallaðir B-bílar sem geta verið velútbúnir og geta tekið fatlað fólk í hjólastólum. A-bílarnir eru reknir af sama verktaka, Hópbílum. B-bílum er greitt fyrirtilfallandi akstur. Að auki aka venjulegir leigubílar 200 ferðir á dag. Í útboðinu sem nú er verið að undirbúa fyrir næstu fimm ár er gert ráð fyrir að hætt verði með svokallað B-bíla og í þeirra stað notaðir leigubílar. A-bílunum verði fjölgað úr 30 í 50. Erlendur segir að ekki sé lengur þörf fyrir B-bílana.
„Nú vitum við miklu meira og við getum stillt af akstursþörfina. Þetta snýst um að koma farþegum í hjólastólum milli staða. Við getum ekki treyst á aðra bíla til þess. Okkar uppsetning snýst um það að hafa nægilega marga hjólastólabíla til staðar þannig að vil lendur aldrei í vandræðum með hjólastólaferðir. Þeir farþegar sem við náum ekki að sinna með A-bílunum fara svo með leigubílum. Þannig náum við utan um þetta," segir Erlendur