Flest bendir til þess að ekki takist að ljúka kjarasamningi áður en tveggja daga verkfall Eflingar og VR hefst á fimmtudaginn. Samningafundi var í dag í annað sinn frestað vega óvissunnar um WOW. Verkfallsvarsla verður hert ef til verkfalls kemur á fimmtudaginn.

Vilja ekki fresta verkfalli

Fundur VR, Eflingar og verkalýðsfélaganna á Akranesi, Grindavík og Húsavík hófst klukkan tíu í morgun. Í gær var fundi frestað vegna stöðunnar hjá flugfélaginu WOW.  Fundi lauk um 11 leytið eftir að orðið var við ósk SA um að fresta fundi á nýjan leik. Atvinnurekendur báru líka fram þá ósk að verkfallsaðgerðum á fimmtudaginn, sem munu standa yfir í tvo daga, yrði frestað. Aðgerðirnar ná til 40 hótela á félagssvæði VR og Eflingar og jafnframt til rútufyrrtækja. Ekki var orðið við þessari ósk og ákveðið að næsti fundur veði klukkan tvö á morgun. Það getur allt gerst á morgun. Hugsanlega verður þessu tveggja daga verkfalli frestað. Það er hins vegar fátt sem bendir til þess og ljóst er að verkfallsvarslan verður hert til muna vegna þess að verkalýðshreyfingin telur að fjölmörg verkfallsbrot hafi verið framin í verkfallinu í síðustu viku. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að á sumum vinnustöðum hafi verið mjög einbeittur brotavilji.

„Í ljósi þess þurfið líklega bara að gefa í það og senda bæði atvinnurekendum og samfélaginu öllu þau skilaboð að verkfallsaðgerðir eru grafalvarlegur hlutur. Þær eru grundvallar réttindi vinnuaflsins,“ segir Sólveig Anna Jónsdóttir.

Talsvert í samninga

Í gær mátti skilja að stutt væri í að samningar næðust. Aðeins ætti eftir að ræða launaliðinn. Samkvæmt heimildum Spegilsins er það nokkuð fjarri lagi. Atvinnurekendur leggja enn áherslu á að samið verði um vinnutímabreytingar. Það felur í sér að dagvinnutímabilið verði lengt, kaffitímar felldir niður,að vinnu vikan verði 36 til 37 tímar í stað 40 eins og nú er og að breytingar verði á yfirvinnuálagi. Þau félög sem sitja við samningaborðið þessa stundina hjá Ríkissáttasemjara hafa alfarið hafnað þessum breytingum. Eftir að þau vísuðu deilunni á sínum tíma til sáttasemjara neituðu þau alfarið að ræða þau mál. Þá lagði SA fram  tilboð sem fól í sér 2,5% hækkun launa yfir 600 þúsund árlega á þriggja ára samningstímabili og 20 þúsund króna hækkun lægstu taxtalaunanna hvert ár eða samtals um 60 þúsund. Þessu tilboðið var snarlega hafnað og í framhaldinu slitnaði upp úr viðræðum.

Nú eru þessi félög komin aftur að borðinu. Meðan þau undirbjuggu verkfallsaðgerðir var hins vegar haldið áfram að ræða við Starfsgreinasambandið, iðnaðarmenn og Landssamband verslunarmanna. Þær viðræður voru komnar nokkuð langt á veg og segja má að það hafi vantað herslumuninn að samningar næðust. Hins vegar slitnaði meðal annars á því að atvinnurekendur vilja að yfirvinnuálag verkafólks í hlutastörfum verði 40% en ekki 80% eins og nú er. Þessi félög eru nú að undirbúa verkfallsaðgerðir. Ef úr verður myndu verkföll ekki hefjast fyrr en í lok næsta mánaðar. Byrjað var að ræða um launahækkanir sem meðal annars kváðu um 90 þúsund króna hækkun lægstu launa á samningstímanum sem átti að vera 3 ár og 9 mánuðir.

Enn rætt um breytingar á vinnutíma

Það er sem sagt búið að vinna þó nokkra vinnu sem gengur út frá hugmynd SA um breyttan vinnutíma. Þau félög sem nú eru hjá sáttasemjara hafa fram að þessu ekki verið til umræðu um þær hugmyndir og tala um yfirhellingu. Verið sé að hækka dagvinnulaunin með því að lækka yfirvinnuna. Félögin sætta sig ekki við að yfirvinnuálag verkafólks lækki í 40 prósent né að 2 til 3 álagslausir vaktavinnutímar bætist við hjá vaktavinnufólki. Það muni að óbreyttu gerast með því að lengja  dagvinnutímabilið. Þau krefjast þessa að launaliðurinn verði ræddur en yfirleitt er það svo þegar flest er klárt er smiðshöggið á samninga rekið með samkomulagi um krónur og aura eða launahækkanir á samningstímanum.

Hafa áhyggjur af WOW

Afdrif WOW gætu haft áhrif á niðurstöðu samninganna enda hefur SA  nú í tvígang frestað sáttafundum vegna óvissu um framtíð félagsins. Eyfjólfur Árni Rafnsson formaður SA, segir að það sé ekki staðan í kjaraviðræðum sem kalli á frestun funda heldur staðan almennt í ferðaþjónustunni sem verkföllin beinast að.

„Staðan almennt talað í greininni er núna þannig að ef allt fer á versta veg þá eru þau fyrirtæki sem verkföllin beinast að núna ekkert í öfundsverðri stöðu,“ segir Eyjólfur Árni.