Áætlað er að byggja tvær nýjar heilsugæslustöðvar á Akureyri fyrir á annan milljarð króna. Núverandi heilsugæslustöð er í ófullnægjandi húsnæði og því talið afar brýnt að byggja nýtt sem allra fyrst. Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Akureyrarbær undirbúa málið í sameiningu.
Heilsugæslustöðin á Akureyri þjónar að jafnaði um 21 þúsund manns, íbúum og ferðamönnum. Starfsemin hefur fyrir löngu sprengt utan af sér húsnæðið í miðbænum á Akureyri.
Húsnæðið ekki ætlað sem heilsugæslustöð
„Þetta er allt of lítið húsnæði. Þetta er á fjórum hæðum, þetta er ekki byggt sem heilsugæslustöð, þannig að það eru ýmsir annmarkar á húsnæðinu,“ segir Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands. „Og aðkoman fyrir þá sem sækja þarna þjónustu er í rauninni algerlega ófullnægjandi.“
Íbúafjöldinn kalli á tvær heilsugæslustöðvar
Fyrir fjórum árum var unnin stefnumótun þar sem niðurstaðan var að húsnæðið dygði ekki lengur fyrir starfsemina og brýnt væri að byggja nýtt. „Og það væri rétt að fara í tvær heilsugæslustöðvar í staðinn fyrir þessa einu. Bara byggt á því hversu margir íbúar eru hér á þessu svæði og hver þróunin verður á næstu árum,“ segir Jón Helgi.
Segir röðina komna að Akureyri
Heilbrigðisstofnun Norðurlands og Akureyrarbær undirbúa málið í sameiningu. Þar er meðal annars verið að skoða hvar í bænum væri best að byggja yfir þessa starfsemi og hvað þyrfti að byggja stórt. Venjan er að sveitarfélög leggi til lóðir fyrir heilsugæslustöðvar en ríkið kosti framkvæmdina. Talið er að það kosti á annan milljarð að byggja tvær heilsugæslustöðvar á Akureyri, en ekki er gert ráð fyrir peningum í þær framkvæmdir á fjárlögum þessa árs. „Hins vegar er það þannig að það er búið að byggja upp heilsugæsluhúsnæði á öllu landinu, í rauninni allt að því alls staðar, nema á Akureyri. Þannig að ég hef nú fulla trú á að menn sýni því skilning og finni fjármuni í verkið,“ segir Jón Helgi.