„Ég hef bara ekkert á móti þessari konu,“ segir söngkonan Selma Björnsdóttir um hina sænsku Charlotte Nilsson sem eftirminnilega marði sigur gegn og framlagi Íslands í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva árið 1999.

Tuttugu ár eru síðan Selma Björnsdóttir kom sá og lenti í öðru sæti í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva með lag sitt All out of luck en afar mjótt var á munum á milli fyrsta og annars sætis það árið eins og flestir muna. Ísland hékk í fyrsta sæti stóran hluta stigakeppninar en úrslitin réðust ekki fyrr en á lokametrunum. Þetta er besti árangur Íslands í keppninni frá upphafi en það ár var keppnin, líkt og í ár, haldin í Ísrael.

Nú, tuttugu árum síðar, eru meðlimir Hatara mættir til Tel Aviv og eins og árið 1999 þegar Selma lenti í öðru sæti er óvenjumikil stemning í kringum framlag Íslendinga. Laginu Hatrið mun sigra er spáð góðu gengi af veðbönkum og hafa einhverjir bent á að síðan árið 2009 þegar Jóhanna Guðrún lenti í öðru sæti með lagið Is it true eru liðin tíu ár, svo ef Hatari gerir það sama má segja að við höfum skapað ákveðna tíu ára hefð.

Selma rifjaði upp frægðarför sína til Jerúsalem í þættinum Alla leið á laugardaginn var. Ævintýrið hófst hófst þegar Sigurður Valgeirsson, þáverandi dagskrárstjóri innlendrar dagskrárgerðar á RÚV, hafði samband við Selmu og bað hana að taka þátt. Það var ekki haldin nein forkeppni það árið heldur var flytjandinn valinn beint. Selma fékk sjálf að velja sér lagahöfund og hún mátt syngja á ensku, en það var í fyrsta skipti sem það var leyft. 

„Ég talaði við Þorvald Bjarna samstarfsmann minn sem samdi heil nítján lög mjög hratt og örugglega. Svo settumst við niður og tókum nokkra daga í að sigta úr þangað til All out of luck varð fyrir valinu. Ég sé ekkert eftir því.“

Selma segist aldrei hafa haldið að hún væri að fara að sigra í keppninni og því hafi henni liðið eins og sigurvegara eftir að úrslitin urðu ljós. „Okkur var spáð rosalega ofarlega af veðbönkum en ég tók því aldrei neitt alvarlega. Ég hafði verið að fylgjast með þessu heima og og alltaf héldu Íslendingar að þeir væru að fara að vinna en enduðu svo í sextánda sæti. Ég var með það á bak við eyrað að við yrðum bara í sextánda sæti eins og venjulega.“

Selma áttaði sig ekki á alvöru málsins og hve mikinn meðbyr Ísland væri að fá fyrr en komið var til Jerúsalem og hún fékk að eigin sögn algjört áfall. „Ég hafði heyrt frá fyrrum keppendum að þátttakan samanstæði að miklu leyti af sólböðum og djammi svo það var það sem ég hélt ég væri að fara að gera. Svo kem ég út og þá er mikið fjölmiðlafár og mikill áhugi á laginu svo ég var ekkert í sólbaði. Þetta var ekkert stuð og djamm heldur vinna allan sólarhringinn.“

Þegar úrslitin lágu fyrir eftir mikla spennu og ljóst að Charlotte Nilsson hefði marið sigur á lokametrunum varð Selma samt ekki fyrir vonbrigðum. „Það var ekki fyrr en ég kom heim og allir fóru að segja mér hvað þetta var spennandi og sögðu: „ohh þetta er ömurlegt við næstum því unnum,“ þá fór ég að átta mig á því hvað ég komst nálægt því.“

Aðspurð hvort Selma hafi kynnst Charlotte, sínum helsta keppinauti, úti í Ísrael svarar hún að hún hafi verið of upptekin úti til að kynnast öðrum keppendum. „Hún kom samt og kyssti mig, faðmaði og óskaði til hamingju þegar hún var búin að vinna. Mér fannst bæði stórt af henni að gera það og fallegt. Ég þekki hana ekki af neinu nema því hvað hún var almennileg og kurteis. Ég hef ekkert á móti þessari konu.“

Hægt er að hlusta á viðtalið við Selmu í spilaranum hér fyrir ofan.