Túngumál

19.06.2017 - 09:53
Mynd með færslu
 Mynd: Bubbi
Nýjasta breiðskífa Bubba Túngumál er plata vikunnar á Rás 2. Platan var gerð undir áhrifum tónlistar frá Suður-Ameríku, þangað sækir Bubbi til að finna andardrátt og hjarta tónlistarinnar.

Suður-Ameríka, Cohen, Cash Bubbi sækir á nýju plötunni eins og áður segir áhrif og innblástur frá Suður-Ameríku. Hann leitar fanga í Mexíkó, Brasilíu og Chile, og raunar víðar. Á plötunni er einnig að finna fadó-lag, með öfugum formerkjum, og lag samið í minningu kanadíska tónlistarmannsins Leonards Cohens sem andaðist á síðasta ári, ,,löng og mikil ballaða,“ segir Bubbi.

Einnig er platan hylling til rokktónlistar sjötta áratugarins, þar sem Johnny Cash kemur við sögu. Leitin að andardrættinum „Þessi plata er leitin að andardrættinum,“ segir Bubbi, „ég er að leita að andardrættinum mínum í tónlistinni aftur, ég tapaði honum, og ég eiginlega uppgötvaði að mig langaði ekki lengur að vinna með tölvur og allt þetta dót sem ræður ríkjum í heimi tónlistarinnar í dag. Þannig að það má segja að ég hafi farið að leita að því hvar er lífræn tónlist í dag, hvar er hún spiluð, hvar er hún stunduð, hvar er hún partur af andardrættinum, og mataræðinu og sorginni og gleðinni, og jafn mikilvægur þáttur í lífi fólks og andardrátturinn, og það er í Suður-Ameríku.“ Hjartað í tónlistinni Öll lögin á plötunni vísa í tónlistarhefðir hinna ýmsu landa Suður-Ameríku, en Bubbi fer víðar, meðal annars til Portúgal. Bubbi segir að platan sé mjög á skjön við nútímann, hann hafi fundið sannleika tónlistarinnar í Suður-Ameríku. Hann segist hafa viljað hafa þetta lífrænt, spilar alla gítara sjálfur, og söng hvert lag aðeins einu sinni, ,,það er slagverk, og tromma, og bassi og búið,“ segir Bubbi sem vill finna aftur hjartað í tónlistinni.

Með því besta sem hann hefur gert Bubbi syngur um ástina, hrunið, misnotkun, kærleikann og margt fleira á nýju plötunni, og segist mjög glaður með hana, og meir en það, hann telur hana á meðal þess besta sem hann hefur nokkurn tímann gert á löngum ferli. ,,Ég held að þetta sé ein af mínum allra bestu plötum,“ segir Bubbi. Fæddur til að skapa Ferill Bubba er orðinn langur og glæsilegur. Aðspurður hvað það sé sem að reki hann áfram talar hann um sköpunarkraftinn og gleðina yfir því að geta skapað, en einnig um flótta, það er ,,flótti frá sársauka, flótti frá óttanum, flótti frá kvíðanum, flótti frá Bubba litla,“ en um leið segist hann skora þetta allt á hólm í listsköpun sinni, hann noti sköpunina til að heila sig, ,,þetta er það sem ég var fæddur til að gera,“ segir Bubbi Morthens. 

Mynd með færslu
Matthías Már Magnússon
dagskrárgerðarmaður
Poppland
Þessi þáttur er í hlaðvarpi
Plata vikunnar