Á hvað er allt þetta fólk að hlusta? Þú finnur það hér. Laugardaginn fyrir páska var fullt tungl, að minnsta kosti var haldið Tunglkvöld í galleríi Kling&Bang við Hverfisgötu. Á Tunglkvöldi lásu að þessu sinni skáldin Óskar Árni og Halldór Halldórsson úr splunkunýjum verkum sínum.

„Tunglið kallar á skáldskap og Tunglið forlag svarar kallinu með útgáfu tunglbóka. Tunglbækur eru nokkuð ólíkar jarðarbókum hvað varðar bæði snið og innihald. Þær innihalda prósaskáldskap sem virðir að vettugi algengustu hugmyndir um lögun skáldsagna.“ Svo rita Tunglmenn á facebook síðu sína Tunglið forlag og laugardaginn fyrir páska var enn haldið Tunglkvöld. Óskar Árni Óskarsson las upp úr Tunglbók sinni Kúbudagbókin og Halldór Halldórsson -  sem er sami maður og uppistandarinn Dóri DNA, og þó ekki -  las upp úr fyrstu bók sinni, sem jafnframt er 10. tunglbókin og nefnist Hugmyndir: Andvirði hundrað milljónir.

Frá 15. júní árið 2013 hafa Tunglkvöld verið haldin nokkuð reglulega á ýmsum stöðum í Reykjavík, í Hljómskálanum, Loft hostel, Nýló við Skúlagötu og nú síðast laugardaginn fyrir páska í galleríi Kling og Bang. Ekki var tilefnið alltaf útgáfa Tunglbóka, en Tungl forlag hefur t.a.m. gengist fyrir ljóðakvöldi með placati auk þess sem forlaginu tengist raftímaritið Skíðblaðnir.

Bækur eru þó aðall forlagsins eins og kannski gefur að skilja, hver bók er gefin út í 69 eintökum og þau aðeins  seld á tunglkvöldum. Þannig séð er það mikið rarítet, svona tunglbók, enda mátti sjá nokkurn mannsöfnuð undir fullu tungli laugardaginn fyrir páska, þ.e. 4. apríl síðastliðinn, freista inngöngu í Kling og Bang galleríið við Hverfisgötu og takast sú ætlan enda þar nokkuð á borð borið. Hér ofulítið sýnishorn. 

Tunglbók nr. 1 var Bréf frá Bútan eftir einn aðstandenda forlagsins Ragnar Helga Ólafsson og vísindalegar athuganir Kristínar Ómarsdóttur undir titlinum Eilífar speglanir. Mánuði síðar litu svo svo bækurnar Kvíðasnillingurinn eftir Sverri Norland og Veraldarsaga (mín) eftir Pétur Gunnarsson dagsins ljós eða öllu heldur tunglsins ljós  - Reyndar komu síðar út bækur eftir sömu höfunda og með svipaða titla í þeirri litlu dagskímu sem íslenkir vetrardagar bjóða upp á – en það er væntanlega allt önnur saga og Tunglinu næsta óviðkomandi.  Næstar á stokk á Tunglkvöldi voru svo Margrét Bjarnadóttir og Björk Þorgrímsdóttir til að fagna útgáfu frumraunar sinnar og bókar númer tvö eða Tunglbóka fjögur og fimm eftir því hvernig á það er litið. Líf mitt til dæmis dagbækur 1998-2002 heitir bók Margrétar en bók Bjarkar Bananasól Ástarsaga.  Nú liðu hins vegar allmargir mánuðir áður en Tungl forlag spratt fram á ný þegar máni óð ský í febrúar árið 2014 og þyrlaði upp 69 eintökum af  Spennustöðin – stílabók eftir Hermann Stefánsson og jafnmörgum eintökum af  Stálskip – nokkur ævintýri eftir Atla Sigþórsson. Eftir þetta velheppnaða tunglkvöld í þáverandi vistaverum Nýlistasafnsins máttu áhugasamir tunglbókaunnendur góla upp í fullt tunglið mánuð eftir mánuð þar til loks heilt ár var liðið og Tungl útgáfa spratt á ný fram og nú á Loft hostel þar sem haldið var ljóðakvöld með ljóðplacati þar sem fjöldi ljóðskálda, þekktra sem minna þekktra lásu ljóð sín. Einungis leið mánuður þar til net eða raftímaritinu Skíðblaðni tímarita fyrir smásögur var hleypt út í stjörnuþokur alnetsins þar sem ævinlega má krækja í það og sloka í sig smásögum eftir Ragnar Helga Ólafsson, Magnús Sigurðsson sem þekktastur er fyrir eigin ljóð og þýðingar á ljóðum annarr auk þess sem  Guðrún Inga Ragnarsdóttir, Einar Lövdahl og Solveig Johnsen eiga efni í Skíðblaðni. 

Allar bækur Tunglsins forlags má nálgast á betri bókasöfnum, en þá aðeins að láni!