Tugir þúsunda gengu gegn rasisma í Lundúnum

19.03.2017 - 06:06
Erlent · Bretland · Evrópa
People gather outside the BBC TV offices in London to protest against racism amid debates about the place of migrants in Britain after the anticipated exit from the European Union (Brexit), Saturday March 18, 2017. (Peter Cary/PA via AP)
 Mynd: AP
Um þrjátíu þúsund manns tóku þátt í göngu gegn rasisma í Lundúnum í gær. Popúlisma var mótmælt og hann sagður grunnurinn að því að Donald Trump náði kjöri Bandaríkjaforseta og Bretar hafi kosið sig út úr Evrópusambandinu. 

Fólksfjöldinn gekk niður Regent-stræti í áttin að Þinghústorginu, Parliament Square. Þar voru haldnar ræður. Meðal ræðumanna var Moazzam Begg, Breti af pakistönskum ættum sem var haldið föngum í Guantanamo. Hann sagði uppgang stjórnmálaafla yst af hægri vængnum, sem og nasista og fasista, hafa hlotið aukið vægi með kjöri Trumps. Trump hafi sagt þegar hann komst til valda að hann vildi fylla Guantanamo af illmennum. „Hvenær ferð þú þangað, gaur?" sagði Begg við fjöldann og átti þar við Trump sjálfan.

Gangan sjálf fór friðsamlega fram. Fólk hélt á skiltum þar sem lýst var yfir stuðningi við innflytjendur og blökkufólk. David Lammy, þingmaður Verkamannaflokksins, tók þátt í göngunni. Nýlegur fundur Nigel Farage og Marie Le Pen, forsetaframbjóðanda í Frakklandi, var honum ofarlega í huga. Hann sagði þá sem tóku þátt í göngunni vera að senda þau skilaboð að þeir vilji ekki fasismann og útlendingahræðsluna sem þau tvö boða í Bretlandi eða annars staðar í heiminum. „Þegar foreldrar mínir komu fyrst hingað á sjötta áratugnum mættu þeim skilti þar sem stóð, „Enga svarta, enga Íra, enga hunda", og við hugsuðum sem svo að við yrðum að snúa baki við rasisma nú á 21. öldinni.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV