Trump yngri fyrir þingnefnd vegna Rússatengsla

30.08.2017 - 06:19
epa05728628 Donald Trump, Jr. upon his arrival in the lobby of Trump Tower in New York, NY, USA, 18 January 2017.  EPA/ALBIN LOHR-JONES / POOL
Donald Trump yngri.  Mynd: EPA
Donald Trump yngri ber vitni fyrir þingnefnd Bandaríkjaþings sem rannsakar meint tengsl starfsliðs kosningaframboðs Donalds Trumps, föður hans, við rússnesk stjórnvöld í aðdraganda forsetakosninganna í fyrra. Formenn nefndarinnar greindu frá þessu í gærkvöld. Trump yngri færir nefndinni einnig umbeðin gögn að sögn AFP fréttastofunnar.

Sonur forsetans er ekki fyrsti fjölskyldumeðlimurinn sem kemur fyrir þingnefndina. Jared Kushner, tengdasonur Trumps, bar vitni í júlí fyrir leyniþjónustunefnd Bandaríkjaþings. Báðir ræddu þeir Kushner og Trump yngri margsinnis við rússneskt áhrifafólk í undanfara kosninganna í fyrra, en báðir neita þeir afskiptum Rússa af framboði Trumps.

Auk rannsóknar þingnefndanna er rannsókn sérstaks saksóknara, Robert Muellers, í fullum gangi. Sú rannsókn gæti leitt til formlegrar ákæru finni hann næg sönnunargögn. Talið er að búið sé að kalla saman kviðdóm sem metur líkurnar á því hvort brot hafi verið framin og ákæra skuli fyrir þau.