Trump og Turnbull funduðu í New York

05.05.2017 - 00:57
President Donald Trump meets with Australian Prime Minister Malcolm Turnbull aboard the USS Intrepid, a decommissioned aircraft carrier docked in the Hudson River in New York, Thursday, May 4, 2017. (AP Photo/Pablo Martinez Monsivais)
 Mynd: AP
Þeir Donald Trump, Bandaríkjaforseti, og Malcolm Turnbull, forsætisráðherra Ástralíu, hittust á stuttum fundi í New York í dag. Fundurinn snerist ekki síst um að brúa þá vík sem myndaðist milli þessara miklu vinaþjóða á dögunum, þegar Trump fór ófögrum orðum um það sem hann kallaði afar heimskulegan samning um að Bandaríkin tækju við ákveðnum fjölda flóttafólks, sem Ástralir synjuðu um hæli. Eftir fundinn sagði Trump allan ágreining um þennan samning úr sögunni og þá Turnbull vera hina mestu mát

 

Sambandið milli Bandaríkjanna og Ástralíu væri eins og best væri á kosið, enda elskaði hann Ástralíu og hefði alltaf gert, sagði forsetinn.

Nokkur hundruð mótmælendur söfnuðust saman fyrir utan fundarstað þeirra Trumps og Turnbulls og hrópuðu slagorð gegn forsetanum, sem var í sinni fyrstu heimsókn til heimaborgar sinnar síðan hann tók við forsetaembættinu. Mótmælendur voru þó miklum mun færri en skipuleggjendur aðgerðanna höfðu gert sér vonir um, en einungis 20% kjósenda í New York borg kusu Trump en um 80% þeirra greiddu Hillary Clinton atkvæði sitt. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV