Trump og listir í Bandaríkjunum

01.03.2017 - 16:22
Donald Trump hefur í gegnum tíðina verið lítið gefinn fyrir listir. Samt eru einhver dæmi um það að hann hafi velt þeim fyrir sér.

Það er búið að snúa honum og hans orðum á alla mögulega kanta og hann snýr okkur og heimsbyggðinni líka í allar áttir. Það er stundum eins og við séum strengjabrúður í hans höndum. Og við getum ekki hætt að fylgjast með.

Já, ég er að tala um manninn sem á dögunum hélt fyrstu stefnuræðu sína í embætti „valdamesta manns í heimi“ eins og við þreytumst ekki á að orða það. Donald Trump var mættur á Capitol Hill til að messa yfir þingmönnum og löndum sínum sem brugðust víst nokkuð vel við boðskapnum, ef marka má háþróaðar kannanir þar vestra.

Fjölmiðlar um allan heim veltu því fyrir hvað karlinn var hófstilltur í stefnuræðu sinni og skyldi kannski engan undra. Þarna erum við að tala um einn mikilvægasta atburðinn í pólitísku dagatali Bandaríkjanna. Í ræðunni er tekið hitastig á stöðu ríkisins, eða ríkjasambandsins sem Bandaríkin eru vissulega. Þetta gefur nafnið til kynna; talað er um State of the Union Address - stöðu ríkjasambandsins.

Eitt af því sem hann ræddi ekki um í ræðunni var staða listarinnar í þessu mikla ríki, kannski er það skiljanlegt í ljósi þess að hann hefur nóg um annað að hugsa. En þvert á það sem margir kunna halda er stuðningur opinberra aðila við listir í Bandaríkjunum umtalsverður þó svo að vissulega komi einkaaðilar þar líka myndarlega. Á mörgum stöðum þykir slíkur stuðningur eftirsóknarvert stöðutákn fyrir efnafólk en samt er það svo að á alríkisgrundvelli og í einstökum ríkjum Bandaríkjanna koma stofnanir ríkisins að þessum málum með ýmsum hætti. Þar er stærst National Endowment of the Arts, fyrirbæri sem stofnað var árið 1965, í forsetatíð Lyndons B. Johnson.

Fegurðin

Það vita flestir nú orðið hvert fegurðarskyn Donalds Trump er. Eins og sólkonungur hefur hann setið í gylltum sölum sínum í Trump Tower í New York. Og ekki vantar þar skreytið, maður minn. Þetta fegurðarskyn hefur hann síðan tekið með sér í Hvíta húsið að einhverju leyti. Í það minnsta eru komin upp hnausþykk gyllt gluggatjöld í sporöskjulaga skrifstofuna frægu. Gólfteppið fékk hann lánað frá forsetatíð Ronalds Reagan. Það er furðulítið upplitað ef marka má ljósmyndir.

Fegurðarskynið er mótað af níunda áratugnum þegar frægðarsól Trumps reis sem hæst og viðskiptaveldi hans var hvað blómlegast. En hvernig hefur maður eins og Trump, sem einhvern veginn er einu númeri of stór fyrir þetta líf komið við sögu bandarískra lista? Það hefur verið týnt saman undanfarnar vikur og mánuði eins og svo margt annað.

Óvænt verk

Það var árið 1994 að listamaðurinn Paul Rebhan gekk inn á MOMA listasafnið í New York, hengdi þar upp eitt verka sinna og merkingu við hlið þess sem greindi frá því að verkið væri gjöf frá Hr. og Frú Donald Trump. Verkið náði að hanga uppi í tvo sólahringa áður en það var uppgötvað. Listamaðurinn var ekki með leyfi en sagðist í viðtali um verknaðinn trúa því að verkið væri eitthvað sem myndi eflaust gleðja viðskiptajöfurinn og konu hans. Gjörningurinn var hugsaður sem mótmæli en Rehban var ósáttur við að bara velþekktir listamenn kæmust þarna inn fyrir dyr með verk sín.

Annars var Donald Trump ekki mjög sýnilegur í listalífi New York borgar þegar hann bjó þar. Árið 1980 hafði hinn þá 33 ára gamli framkvæmdamaður vakið nokkra athygli þegar hann eyðilagði Bonwit Teller bygginguna á Manhattan til að byggja Trump turninn sinn. Með þeirri byggingu fóru jafnframt tvær Art Deco lágmyndir sem skreyttu þá byggingu. Trump var þá búinn að reikna það út að það að fjarlægja stytturnar myndi kosta hann hálfa miljón dala. Hann taldi eyðileggingu verkanna þó einkum snúast öryggi vegfarenda á jörðu niðri, það að bjarga þeim skapaði meiri hættu en Metropolitan safnið í borginni hafði lýst sig reiðubúið að taka á móti verkunum.  

Fílaskítur

Árið 1996 kom Trump inn í fjölmiðlastorm í vatnsglasi sem snérist um listaverk breska myndlistarmannsins Chris Ofili sem þá var til sýnis í safni í Brooklyn. Verkið var Madonnu-mynd gert úr olíuliitum, glimmer og fílaskít. Þáverandi borgarstjóri New York og stuðningsmaður Trumps fyrr og síðar, Rudolph Giuliani, tók sér fyrir hendur eins konar krossferð gegn verkinu, reyndi jafnvel að úthýsa 100 ára gömlu safninu úr húsakynnum sínum og hvað eina.

Stuðningsmenn borgarstjórans í málinu voru helst í trúarhópum sem móðguðust heilmikið fyrir hönd guðsmóðurinnar og jú, Donald Trump var sammála mati Giuliani. „Sem forseti,“ sagði viðskiptajöfurinn og forseti framtíðarinnar „myndi ég tryggja að listasjóðurinn National Endowment of the Arts hætti að styrkja slíka hluti.“ Reyndar kom styrkveiting frá sjóðnum hvergi nærri safninu en Trump var harður á því að það væri hlutverk ríkisvaldsins að stoppa slíka vitleysu. „Þetta er ekki list, þetta er algjörlega ógeðslegt, úrkynjað drasl.“ Notkunin á orðinu úrkynjað í tengslum myndlistina kveikti tengingar á notkun Hitlers á orðinu árið 1937 þegar hann og hans pótintátar ætluðu að segja þýskum listamönnum til um hvað þeir mættu og ættu að gera.

Kólumbus og Warhol

Donald Trump, þrátt fyrir allan sinn auð, hefur ekkert verið að stressa sig á því að kaupa myndlist í gegnum tíðina. Hann hefur aldrei sýnt tilburði á að safna myndlist eins og margir auðkýfingar hafa gert. Aftur á móti hefur hann oft talað um fjölmargar byggingar sínar sem mikil listaverk.

Það er ekki oft sem Donald Trump hefur beitt sér fyrir listum og menningu, ef frá er talinn sjónvarpsferill hans. Eitt dæmi er þó tiltekið þegar hann beitti sér fyrir því að stytta eftir rússneska listamannainn Zurab Tsereteli af landkönnuðinum Christopher Columbus yrði sett upp við bakka Hudson ár í New York. Fjölmargar borgir, höfnuðu styttunni og þar á meðal New York hvað svo sem Donald Trump fannst um málið. Styttan átti að vera 100 metra há og yfir 600 tonn á þyngd. Trump var hrifinn enda var bronsið í henni fjörutíu milljón dollara virði, eins og hann orðaði það árið 1997.

Samskipti Trumps við myndlistarmenn eru ekki sérlega vel færð til heimilda. Hins vegar er vitað að Trump og forsíðupiltur bandarískrar myndlistar, Andy Warhol, hafi átt nokkur samskipti á sínum tíma.

Þeir hittust víst í veislu hjá harðjaxlinum og mafíósalögfræðingnum lögfræðingnum Roy Cohn og í framhaldi af því heimsótti Trump vinnustofu Warhol og bað hann um að gera fyrir sig mynd af sínum ástkæra Trump turni í New York sem ætti að hanga í inngangi íbúðarinnar hans þar innan dyra.

Warhol tók vel í hugmyndina og vann átta verka seríu en greindi síðan frá því að myndirnar hafi valdið Trump miklu tilfinningalegu uppnámi þegar hann sá þær, því að hans mati voru þær ekki nógu samræmdar í lit. Ekkert varð því úr frekari vinnslu verkefnisins.

Annars er svo sem ekki mikið meira að segja um listsmekk nýs Bandaríkjaforseta, en í kerfinu sem snýr að opinberri aðkomu að starfsemi listastofnanna í Bandaríkjunum hafa menn nokkrar áhyggjur af valdatökunni. Titringurinn er víða þessa daganna.

Trump virðist samt ekki sérlega áhugasamur um listir, sem kannski er gott, kannski ekki. Hann á víst eftirprentanir af Renoir málverkum í íbúðinni í Trump Tower sem var hönnuð með sólkonunginn Loðvík fjórtánda í huga.

Eitthvað af verkum hans hanga í Mar-a-Lago setri hans í Florida. Þar eru skemmdust til dæmis tvö flæmsk veggteppi frá 16. öld vegna þess að það láðist að verja þau fyrir sólarljósinu sem er rækilegt þar suður frá. Þar er líka nokkuð hégómleg portrettmynd af honum í hvítri útivistarpeysu og hvítum buxum. Að baki hans er rósrauður himinn en í forgrunni er nokkuð stór og klunnaleg hönd sem að stelur senunni, eins og reyndar gylltur ramminn, sem er svo stór að hann þarf eiginlega sitt eigið póstnúmer, en hvað um það.

Mynd með færslu
Guðni Tómasson
dagskrárgerðarmaður
Víðsjá
Þessi þáttur er í hlaðvarpi