Trump gagnrýndi framlög annarra ríkja til NATÓ

17.03.2017 - 19:01
epa05854358 US President Donald J. Trump (L) welcomes German Chancellor Angela Merkel at the White House in Washington, DC, USA, 17 March 2017. Merkel's original visit on 14 March had to be postponed due to bad weather.  EPA/CLEMENS BILAN
 Mynd: EPA
Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti því yfir í kvöld á blaðamannafundi í Washington með Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, að Bandaríkin styddu samstarf Atlantshafsbandalagsríkja. Hann lagði þó á það áherslu að sum ríki kæmust betur utgjöldum til varnarmála en önnur og því yrði að breyta.

Trump og Merkel hittust í fyrsta sinn í dag. Eitt helsta umræðuefni þeirra var afstaðan til Atlantshafsbandalagsins, NATÓ. Trump sagði að mörg ríki hefðu komist hjá því að greiða næg framlög til NATÓ á undanförnum árum og það væri á kostnað Bandaríkjanna. Þessi ríki yrðu að greiða skuldir sínar.

Málefni Úkraínu voru einnig til umræðu á fundi leiðtoganna. Þau kváðust vera sammála um að friðsamlega lausn yrði að finna á deilunni milli Rússa og Úkraínumanna. Bandaríkjastjórn ítrekaði í gær að hún fordæmdi að Rússar hefðu innlimað Krímskaga. Efnahagslegum refsiaðgerðum gegn Rússum yrði beitt áfram þar til þeir skiluðu Úkraínumönnum skaganum.

Efnahagssamskipti Evrópusambandsríkja og Bandaríkjanna voru og rædd á leiðtogafundinum í dag. Donald Trump kvaðst ekki vera einangrunarsinni í efnahagsmálum. Hann kvaðst styðja frelsi í viðskiptum þjóða í milli, en hann vildi einnig að sanngirni væri gætt. Hann kvað halla á Bandaríkin í þessum viðskiptum. Afleiðingin væri sú að milljónir dugmikilla Bandaríkjamanna hefðu misst vinnuna. Markmið sitt væri að vinna með öðrum þjóðum að því að sanngirni yrði gætt og þannig væri launþegum tryggt fjárhagslegt öryggi.

 

Mynd með færslu
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV