Á dögunum voru haldnir bíótónleikar í Eldborgarsal Hörpu þar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands lék undir endurbættri úgáfu hinnar sígildu kvikmyndar Síðasti bærinn í dalnum eftir Óskar Gíslason.
Þórður Ingi Jónsson skrifar:
Þetta er önnur kvikmyndin í fullri lengd sem gerð var hér á landi en það var árið 1950. Þetta var líka í fyrsta sinn sem kvikmyndatónlist var samin við mynd í fullri lengd á Íslandi. Það var tónskáldið Jórunn Viðar heitin sem samdi tónlistina fyrir myndina á sínum tíma sem varð feiknavinsæl. Myndin var sýnd bæði erlendis sem og um allt land. En smám saman fór filman illa. Hún slitnaði oft við notkun og var límd saman í ótal bútum í gegnum árin. Þetta varð til þess að tímasetningarnar á stefjum Jórunnar riðluðust. Tónlistin fyrir myndina var tekin upp á stálþráð, sem entist betur en filman. Tónlistin passaði því ekki lengur við söguþráðinn í myndinni og aðeins var eitt eintak af henni.
Á bíótónleikum Sinfóníunnar á dögunum hljómaði því tónlist Jórunnar í fyrsta skipti í áratugi hnökralaust við kvikmyndina. Mikil vinna fór í að endurgera bæði mynd og tónlist til að allt gengi upp og það gerði það svo sannarlega. Sinfónían flutti mergjaða tónlist Jórunnar á meistaralegan hátt í stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar við þessa frægu kvikmynd, sem hræddi svo marga krakka á Íslandi í gamla daga.
Það þurfti að liggja lengi yfir bæði mynd og tónlist til að áætla tímasetningu stefjanna að myndinni. Nóturnar að tónlist Jórunnar voru lengi týndar. Fyrir um 15 árum fékk tónskáldið Þórður Magnússon það verkefni að skrifa niður hluta af tónlist Jórunnar fyrir tónleika með Kasa-hópnum. Þar sem talið var að nóturnar væru týndar, gerði Þórður þetta eftir eyranu. Að sögn Þórðar fannst honum ekki annað hægt en að öll músíkin væri til á nótum, þannig að hann skrifaði upp mest af því sem eftir var og útsetti fyrir píanó. Fyrir ári síðan hafði Sinfónían samband við Þórð og bað hann um að búa til raddskrá svo mögulegt væri að flytja tónlistina undir allri myndinni.
Á sama tíma komst hann að því að í millitíðinni hefði hluti af hljóðfærapörtunum komið í leitirnar. Tónskáldið Axel Ingi Árnason var að skrifa meistararitgerð um Jórunni og hafði þá tölvusett lungann af þessum pörtum. Þórður hélt þeirri vinnu áfram og fyllti í eyðurnar með því sem hann hafði skrifað niður. Þá var raddskráin komin í þá mynd sem líklegast er að Jórunn hafi skilað af sér á sínum tíma. Þegar betur var að gáð kom í ljós að eitthvað mikið hafði farið úrskeiðis þegar tónlistin var sett við myndina en raddskráin innihélt tónlist sem passaði mun betur við myndina en það sem var fyrir hendi. Ástæðan fyrir þessu var sú að upprunalega hljóðrásin hafði glatast og reynt hafði verið að endurgera hana árið 1968. Sú endurgerð var greinilega mjög gölluð að sögn Þórðar, sem fór þá að reyna að finna út úr því hvernig Jórunn hafði upprunalega hugsað sér að setja tónlistina við myndina. Ekki var haft samráð við Jórunni við endurgerðina frá 1968 og því hefur sú útgáfa af myndinni sem notuð hefur verið síðustu 50 árin ekki verið með tónlist í samræmi við áætlun Jórunnar. Mikið bras, mikil vinna en einhver verður jú að hreinskrifa kvikmyndasöguna.
Í viðtali í Þjóðlífi frá árinu 1989 segir Jórunn frá tilurð verksins. „Þar þurfti sextíu mínútur af tónlist,“ sagði Jórunn. „Þá sat ég með stoppúrið og mældi út því að allt varð að standast upp á sekúndu. Tónlistin var tekin upp á stálþráð og síðan sinkróníseruð við filmuna í London. Ég vandaði mig mjög mikið við þetta. Wagner hafði haft mikil áhrif á mig, sérstaklega hvernig hann málar hverja persónu með tónum. Það langaði mig til að gera við myndina. Börnin, sveitin eða bærinn og tröllin höfðu hver sína tónlist sem átti að einkenna hvert fyrir sig. Óskar notar mörg tæknibrögð eins og til dæmis þegar fólk hverfur. Músíkin verður að sýna galdrana með einhverju viðeigandi. Þegar börnin fara í kistuna og fljúga af stað verða tröllin, óttinn og flugið að fylgjast að í tónlistinni. Skemmtilegast var atriðið þegar vinnumaðurinn er í smiðjunni að smíða og breytist á meðan í tröll og sleikir svo glóandi járnið.“
Við endum þetta á broti úr heimildarmynd Ara Alexanders, Orðið Tónlist: Jórunn Viðar frá árinu 2009, þar sem Jórunn segir sjálf frá verkinu. „Svo fór hann (Óskar Gíslason) á ferðalag með myndina. Hann sýndi hana út um allt land og hann fór með hana til Noregs, Danmerkur, Skotlands - svo hef ég ekki meiri tölu á hvert hann fór. En gekk alls staðar mjög vel. En það sem var að, var það að myndin slitnaði svo oft, altso filman. Hún slitnaði svo oft. Aumingja maðurinn, hann hafði ekki nein tök á því að fá nýja filmu eða endurnýja og hann bara límdi það einhvern veginn saman. Þá var orðið svoleiðis að dvergamúsíkin hljómaði hjá álfkonunni og álfkonumúsíkin hljómaði hjá krökkunum. Það var allt orðið vitlaust og ringlandi. Svo eftir nokkur ár gátum við fengið endurnýjaða filmuna að einhverju leyti og ég held að áframhaldið hafi ekki verið eins svakalegt.“