Trjáleifar tímasetja Kötlugos

05.07.2017 - 11:57
Mynd með færslu
Drumbabót á Markarfljótsaurum  Mynd: Ólafur Eggertsson Skógræktinn  -  RÚV
Með rannsókn á 1200 ára trjádrumbum hefur í fyrsta sinn tekist að tímsetja nákvæmlega Kötlugos fyrri tíma. Það varð rétt fyrir landnám eða veturinn 822 til þrjú. Þessa nýju aðferð má nota til að tímasetja stórgos fyrri tíma, segir einn vísindamannanna. 

Niðurstöður rannsóknarinnar voru birtar vísindaritinu Geology í júní en frá þessu er greint á vef Skógræktarinnar. Ólafur Eggertsson jarðfræðingur og sérfræðingur í árhringjarannsóknum á Rannsóknarstöð skógræktar við Mógilsá er einn höfunda greinarinnar sem sagt er frá á vef Cambridge-háskóla. Trjádrumbarnir eru í Drumbabót við eyrar Þverár í Fljótshlíð, níu kílómetra frá Hvolsvelli. Þarna var myndarlegur birkiskógur og urðu trén um hundrað ára. 

Mynd með færslu
 Mynd: Ólafur Eggertsson Skógræktinn  -  RÚV

Vitað var af eldgosi í Kötlu á þessum tíma rétt áður en land byggðist en með rannsókn á árhringjum trjánna var hægt að finna út hvenær nákvæmlega. Áhrif eldgossins á drumbana voru þau að við gosið varð mikið jökulhlaup niður Markarfljót, segir Ólafur Eggertsson:

„Það hlaup varð 822 svona sirka 50 árum fyrir landnám.“

Hvernig getur maður notað gamla trjádrumba til að hjálpa sér með slíkt?

„Það var þannig að við tókum sýni af nokkrum drumbum og bárum saman árhringina og sáum að öll trén höfðu drepist í sama atburði.“ 

Geislakolsgreining sýndi að trjádrumbarnir hefðu líklegast fallið fyrir um 1200 árum. Þá ákváðu vísindamennirnir að leita í árhringjunum að svokölluðum sólgosatoppi sem varð árið 775. Og það tókst.

Mynd með færslu
 Mynd: Ólafur Eggertsson Skógræktinn  -  RÚV

„Þessi aðferð er mjög ný af því að við fundum þennan sólartopp. Það eru til fleiri svona sólartoppar sem eru þekktir, ártalið þekkt, í trjám erlendis. Og þá ætti það líka að vera í trjám hérna heima. Þannig að það er kannski möguleiki í framtíðinni að fá nákvæman aldur á fleiri gos eins og hamfaragosin í Heklu, Hekla 3 og Hekla 4, vegna þess að þar undir leynast oft viðardrumbar með árhringjum.“

Fjallað var um drumbana í Drumbabót og rætt við Ólaf Eggertsson í Landanum árið 2012. Í innslaginu er meðal annars birt kort af því svæði sem ætlað er að jökulhlaupið hafi farið yfir. 

Drumbabót í Landanum
Mynd með færslu
 Mynd: Ólafur Eggertsson Skógræktinn  -  RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ólafur Eggertsson árhringjasérfræðingur einn höfunda rannsóknarinnar
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV