Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, segir erfitt að treysta yfirlýsingum um að gerð verði bragarbót á verkferlum borgarinnar í kjölfar skýrslu innri endurskoðunar um braggamálið svokallaða. „Hvers vegna ætti ég og borgarbúar að treysta því að það verði farið af stað með einhverjar umbætur núna?"

Vigdís og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar og formaður borgarráðs, ræddu skýrslu innri endurskoðunar um braggamálið svokallaða í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Vigdís hefur sagt í fjölmiðlum að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri þurfi að segja af sér vegna málsins. Hún segir að eftir að skýrslan var kynnt í gær sé hún alveg sannfærð um að það verði að gerast. Hún telur að borgarstjóra sé hlíft í skýrslunni.

„Hver trúir því að borgarstjóri hafi ekki vitað af þessu máli allan tímann? Vegna þess að það kemur fram í skýrslunni að stjórnendakeðjan var rofin. Skrifstofustjóri eigna- og atvinnuþróunar hafði beint samband við borgarstjóra allan tímann, hoppaði yfir sinn yfirmann sem var borgarritari. Það hefur komið fram að skrifstofustjóri sat alla undirbúningsfundi borgarráðs og þeir sitja líka borgarráðsfundi, skrifstofustjórarnir, þannig að þetta var ljóst allan tímann og ég kaupi það ekki að Dagur hafi ekki vitað af þessu enda var hann mættur niður í Nauthól 2015 að klippa borða. Það er útilokað að hann hafi ekki vitað af þessu."

Þórdís Lóa sagðist ekki sammála því að borgarstjóra sé hlíft í skýrslunni. Hún sagði að ný borgarstjórn væri í umbótaham og fagnaði skýrslunni og því að nú væru staðreyndir komnar fram.

„Umboð var ekki virt, ábyrgð ekki virt, kostnaðarmat ekki gert, eftirlit ekki virt. Þetta kemur allt mjög skýrt fram í skýrslunni og þetta er eitt af því sem við verðum að fara bara beint í umbætur í núna. Við erum reyndar byrjuð á því. Við byrjuðum reyndar strax í að endurskoða innri verklagsreglur skrifstofu eigna- og atvinnuþróunar, sem hefur verið svona aðalpersónan í þessu leikriti. Við höfum einnig farið í að endurskoða miðlæga stjórnsýslu sem er þegar orðin sex ára gömul og það er greinilega kominn tími á að endurskoða þetta allt saman. Þetta var eitt af því sem við vissum og töluðum um í kosningabaráttunni, að einfalda kerfið, gera það straumlínulagað þannig að við gætum treyst á það, þó að við viljum flýta okkur hægt. Við viljum hafa ferlana góða en það verður að tryggja að það verði farið í þá."

Þórdís Lóa sagði að það kæmi einnig vel fram í skýrslunni að endurskoða þyrfti ábyrgð og skyldur starfsmanna borgarinnar. „Við í pólitíkinni, bæði í innkauparáði og borgarráði og borgarstjóri, þetta fór framhjá þessari pólitík og það er mjög alvarlegt mál af því að pólitíkin vill náttúrlega bera ábyrgð á þeim ákvörðunum sem hún kemur að. Þegar hún kemur ekki að ákvörðunum þá er erfitt að bera ábyrgð. Þetta verkefni er sér á parti. Það fer bara alla leið án þess að það séu einu sinni samþykktar kostnaðaráætlanir, ekki einu sinni gerðar, og það er það sem við köllum alvarlega stjórnsýslu og ætlum að gera bragarbót á."

Vigdís sagði ekki rétt að ekki hefðu verið gerðar kostnaðaráætlanir. Skýrslan stjórnsýslu borgarinnar falleinkunn og sagðist Vigdís ekki geta treyst því að ekki væru fleiri slík verkefni í vinnslu hjá borginni.

„Ég nefni vitann á Höfða, Mathöll á Hlemmi, Mathöll á Granda, Írabakka hjá Félagsbústöðum. Borgin er stútfull af svona verkefnum. Það þýðir ekkert að tala um það núna að það þurfi að gera einhverja bragarbót núna í að laga kerfið. 2015 skilaði þetta embætti til borgarráðs harðorðri skýrslu þar sem voru yfir þrjátíu ábendingar sem þurfti að laga til þess að svona verk og fleiri atriði myndu ekki lenda í því tjóni sem bragginn er lentur í. Það var hunsað."