„Textinn í skáldsögunni er hlaðinn táknum og myndlíkingum, og það er kannski ekki hægt að biðja um minna frá bók sem ber titilinn Ritgerð mín um sársaukann,“ segir Guðrún Baldvinsdóttir um nýjustu skáldsögu Eiríks Guðmundssonar. Bókin sé þó ekki eintómur tregi og sorg. „Skáldsagan er bráðfyndin á köflum og persónurnar eru litríkar og töfrum blandnar.“
Guðrún Baldvinsdóttir skrifar:
Ný skáldsaga eftir Eirík Guðmundsson kemur út hjá Benedikt bókaútgáfu nú fyrir jólin en bókin hefur ekki farið hátt hingað til. Jólabókaflóðið blessaða er merkilegt fyrirbæri að þessu leyti. Auðvitað verður ómögulegt að fjalla um allar þessar bækur og sumar bækurnar verða undir og ná ekki risi fyrr en rétt fyrir jólin eða eftir að allt er liðið hjá.
Ritgerð mín um sársaukann er fimmta skáldsaga Eiríks Guðmundssonar en Eiríkur er væntanlega þekktastur fyrir að vera þáttastjórnandi hér á Rás 1. Og við erum ekki lengi að heyra kunnuglega hrynjandi í bókinni sem við könnumst við úr útvarpinu. Í skáldsögunni vinnur Eiríkur með keimlík þemu úr fyrri bókum hans; listina, ástina og hverfulleika tilverunnar.
Minningabrot og hugleiðingar
Við hefjum för þar sem sögumaður okkar og aðalpersóna er á leið inn í borgina ásamt kærustu sinni, Klöru. Þessi bílferð rammar inn frásögnina á óljósan hátt, en við taka minningabrot sem virðast í fyrstu vera tilviljanakennd en smám saman fáum við tilfinningu fyrir sögumanninum og lífi hans. Bílferðin er þráður sem reynir af öllu afli að halda sögunni saman, en lengstan part er sögumaðurinn þó staddur í gömlu húsi á eyrinni, á ónefndum stað fyrir vestan þar sem hann dvelur við skriftir. Klara er með honum en annars ver hann tíma sínum með minningum sínum af fólki úr fortíðinni, Söru frænku og Aþaneusi frænda.
Sögumaður okkar er kominn í þetta hús til að sinna ritstörfum, til þess að skrifa ritgerðina um sársaukann. Við lesendur verðum því vitni að texta sem verið er að skrifa og við lítum yfir öxlina á honum á meðan hann vinnur. Textinn er í dagbókarformi og við fáum á tilfinninguna að textinn buni upp úr honum á meðan hann skrifar, að sögumaðurinn hafi sest niður og dritað niður orðunum á blaðið í einni hendingu. Textinn er þéttur í sér, ef hægt er að komast svo að orði. Hver setning hefur merkingu sem stundum flýtur framhjá manni því textinn er hraður og tempóið takfast og stöðugt.
Tónlistin og þráin fyrir því liðna
Þáþrá er fínasta þýðing á enska orðinu nostalgía, og að mörgu leyti betra orð. Í þránni býr nefnilega ákveðinn tregi sem ekki er að finna í nostalgíunni. Tregahyggjan í Ritgerð minni um sársaukann er alltumlykjandi; sorg yfir tímanum sem hefur liðið og sem ekki hefur liðið. Höfundur ritgerðarinnar stekkur fram og til baka í tíma og með endurtekningunum förum við lesendurnir að kannast við okkur, mitt í miðju minningaflóðinu.
Tónlist leikur mikilvægt hlutverk í textanum en höfundur Ritgerðarinnar minnist reglulega á tónlist úr fortíðinni. Tónlistin staðsetur okkur í tíma sem er löngu liðinn, og þótt tónlistin sé miklu eldri en tímabilið sem hann vísar til þá er tónlistin ætíð full af trega yfir því sem aldrei varð og því sem hefði getað orðið. „Monnlight Seranade“ með Glenn Miller og „Moon River“, níu mínútna útgáfan, eru stef sem koma fyrir aftur og aftur í textanum og það er eflaust ekki vitlaus hugmynd að spila tónlistina með lestrinum. Að sama skapi eru áhrifavaldar á sviði ritlistarinnar dregnir fram í löngum upptalningum og gripið til þeirra ef með þarf. Það má segja að þannig geri höfundurinn tilraun til að draga okkur inn í hugsanir sínar án þess að þurfa að stafa þær ofan í okkur. Einnig staðsetur hann sig við hlið þessara miklu manna í bókmenntasögunni.
Tákn sem tala fyrir sig sjálf – eða ekki
En Ritgerð mín um sársaukann er ekki eintómur tregi og sorg. Skáldsagan er bráðfyndin á köflum og persónurnar eru litríkar og töfrum blandnar. Þar má þá helst nefna Aþaneus frænda, sem er ætíð við hlið sögumannsins í minningum hans. Fyrir miðja bók fær sögumaðurinn það hlutverk að skrifa um líf frænda síns, en það er óljóst hvort Aþaneus sé manneskja eða einungis skuggi eða ímyndun sögumannsins okkar. Eins og svo margt í skáldsögu Eiríks Guðmundssonar þá er Aþaneus persóna sem okkur ber ekki endilega að skilja og túlka, heldur fá tilfinningu fyrir. Aþaneus er goðsögn sem fær orðið í skrifunum og fær þannig tækifæri til að segja sína hlið. Hann veitir okkur einnig nýja sýn á sögumanninn sem að öðru leyti hefur orðið.
Textinn í skáldsögunni er hlaðinn táknum og myndlíkingum, og það er kannski ekki hægt að biðja um minna frá bók sem ber titilinn Ritgerð mín um sársaukann. Græna rósin sem blasir við okkur á kápunni kemur ítrekað fyrir, og því miður nær innsæi mitt og þekking ekki svo langt að átta mig á hvað hún táknar, og það kom svosem ekki að sök. Rómantíkin yfirgnæfir allt og hún felur í sér að táknin séu ekki endilega bara til að túlka þau, heldur frekar að finna fyrir þeim. Ástin er sársaukafull og tíminn þvælist fyrir okkur, í lífi sem og dauða.
Það sem er heldur ógnvænlegt við þessa skáldsögu (en ef til vill bara hressandi) er að sögumaðurinn okkar, ritari Ritgerðarinnar, en líka höfundur bókarinnar, Eiríkur Guðmundsson, hræðist ekki að fjalla um hið ógnarstóra: ástina, dauðann, sársaukann, tímann og tilveruna. Þetta getur auðvitað allt orðið heldur yfirþyrmandi á köflum og ef til vill hefðu stakar setningar notið sín betur einar og sér á annars auðri blaðsíðu. En það breytir því ekki að textinn er margbrotinn og sogar lesandann til sín og margar setningarnar eru til þess fallnar að lesa aftur, fletta til baka og leyfa þeim að sjatna með tímanum. Og ef við getum ekki fjallað um hið stóra í skáldskap, hvar eigum við þá að gera það?