Á dögunum kom út sjötta hljóðversplata bandaríska tónlistarmannsins Toro Y Moi, hún nefnis ytri friður, og er einhvers konar hámörkun á hans sterkustu hliðum hingað til.

Hann hóf feril sinn sem svefnherbispoppari, og hluti af stefnu kenndri við Chillwave, en hefur nú víkkað hljóminn talsvert út fyrir herbergið og senuna. Toro Y Moi fæddist árið 1986 í Columbia í Suður-Karólínufylki, móðir hans var frá Filippseyjum, föður hennar af afrískum uppruna, og drengurinn var skírður Chazwick Bradley Brundick. Hann stofnaði rokkband í menntaskóla en byrjaði á raftónlist uppa á eigin spítur í háskóla, þar sem hann lærði grafíska hönnun. Í háskóla myndaði hann einnig sterk vina- og tónlistartengsl við Ernest Greene, sem bjó til tónlist undir nafninu Washed Out og samdi það sem er umdeilanlega hægt að segja einkennislag Chillwave-stefnunnar, Was It All Around.

Chillwave var merkimiði sem var slengt á slatta af tónlistarmönnum sem spruttu upp í enda noughties, fyrsta áratugs 21. Aldarinnar, sem bjuggu til tónlist með svipaðri áferð. Þetta var lo-fi popptónlist gerð í svefnherbergjum og síuð í gegnum kasettusuð og séð í gegnum máðar rúður og poloroid-myndir. Það var talsvert samplað, hljóðbútar úr eldri tónlist teknir traustataki, mikið um gáskafulla synþa frá níunda áratugnum, röddunum oftast drekkt í reverbi frá draumapoppi Coctou Twins og Slow Dive, sáldrað með ambient barnapíanóum og brotnum töktum Boards of Canada og múm, strandarstemmningu og skúturokki Brians Ferrys, en undir öllu voru veðraðar melídíur með snjáðri áferð. Ölduniðurinn í Feel It All Around er því sem næst áþreifanlegur.

Stefnan var líka merkileg fyrir þær sakir að hún hafði engar eiginlegar höfuðstöðvar heldur spratt hún upp á mörgum ólíkum stöðum samtímist og myndaði tengsl í gegnum internetið. Hún þróaðist síðan í ýmsar áttir og afleiður hennar voru kallaðar nöfnum eins og syntwave og vaporwave. Af öðrum helstu spámönnum tjillbylgjunnar voru Neon Indian, Kavinsky, Com Truise, Ariel Pink, Tycho og Dayve Hawk frá Fíladelfíu sem gerði tónlist undir hljómsveitarnafninu Memory Tapes og átti eina bestu plötu ársins 2009 að mati undirritaðs, Seek Magic. Í laginu Bicycle af plötunni er að finna gítarsóló sem kemur þráðbeint úr smiðju Manchester-hetjanna í New Order.

En aftur að Chazwick Bundick, sem byrjaði að gangast við listamannsnafninu Toro Y Moi þegar hann var í listaháskóla seint á óþekka áratugnum. Hann útskrifaðist með gráðu í grafískri hönnun árið 2009 og komst á plötusamning sama ár, í janúar árið eftir kom út hans fyrsta breiðskífa Causers of This.

Á plötunni mátti heyra hugvitsamlega sömplun, lifaða synþa og bergmálsdrekktan söng í sjóðheitri hljóðsúpu sem rann beint ofan í Chillwave-trektina, þó hann sjálfur hafi afneitað þeim dilkadrætti í viðtölum, enda vilja fæstir tónlistarmenn með sjálfsvirðinga láta flokka sig, sama hversu mikið hún á rétt á sér. Hlustiði bara á mistraðan opnunarhljóminn í Blessa.

Vegna velgengni plötunnar árið 2010 fór hann í túra þar sem hann hitaði upp fyrir kanadíska stærðfræðiséníð Caribou og frönsku popprokksveitina Pheonix. Það sama ár skolaði honum upp á íslands strendur þar sem hann spilaði á hinum nú lokaða Venue stað á Iceland Airwaves hátíðinni.

 

En Toro Y Moi lét ekki deigan síga né loka sig inn í chillwave boxinu, því næsta plata hans kom ári seinna, Underneath The Pine, og þar voru engin sömpl heldur var öll platan spiluð live, af honum á nánast öllum hljóðfærum. Þar færði hann sig frá segulbands látækninni sem einkenndi fyrri plötu og sótti innblástur í diskófönk síð-áttunda-áratugarins, og valhoppar léttleikandi yfir bilið milli Giorgio Moroder og Kool and the Gang, og viðurkennir meira að segja stefnubreytinguna í fyrsta lagi plötunnar sem heitir einfaldlega New Beat. Þar eru heldur engin einföld grúv heldur stigvaxandi taktbreytingar og djössuð hljómborðssóló sem sprúðla út um allt lagið.New Beat

Hoppum svo hratt yfir fjórar fínar plötur yfir í Ytri friðinn, Outer Peace, sem kom út um miðjan janúar. Chaz hefur sagt í viðtölum að það sem hafði áhrif á plötuna var að hann ákvað að fara ekki í tónleikaferðalag eftir sína síðustu skífu, Boo Boo, sem kom út 2017. Í staðinn túraði hann sem plötusnúður og orkan af klúbbunum og danstónlistinni, auk listamanna eins og Daft Punk, varð helsti hvatinn og áhrifavaldur á nýju plötunni.

Og hérna er Toro Y Moi í meiri house-gír en hann á að venjast, fyrir utan hliðarverkefnið Les Sins, sem hann gaf út eina plötu með nokkrum árum fyrr. En þó að taktarnir séu hraðari hefur hann ekki sagt skilið við skítuga diskófönkið, hlustið bara á bassalínuna í Ordinary Pleasure sem hefði getað komið frá Larry Graham eða Sly Stone sjálfum. Þetta er líka ekki venjulegt house þó taktarnir séu þannig, lögin eru í popplagalengd og dempuð söngrödd Chaz leiðir framvinduna þó hún sé kannski ekki fremst í mixinu. Í Laws of the Universe teygir hann úr sérhljóðunum drafmæltur og vitnar í einn helsta slagara LCD Soundsystem, „James Murphy is spinning at my house“.

En hann gefur sér líka tíma til að anda um miðbik plötunnar í New House og Baby Drive it Down, en keyrir svo aftur í krús kontról í Freelance, sem er líka fyrsta smáskífa plötunnar, í mjög skoppandi grúvi og hikstandi rödd, sem gæti fyllt dansgólf full af áhugaverðu fólk norðan allra alpafjalla. Hann lætur síðan undan oki átó-túnsins í Monte Carle en gerir það mjög smekklega.Freelance