„Tónlistarsagan er mun merkilegri en margir halda. Við gerum að sjálfsögðu ráð fyrir því að landnámsmenn hafi tekið með sér einhverja tónlist hingað á sínum tíma en síðan geriðst kannski ekki mikið á hinum myrku miðöldum, kannski í allt að fimm hundruð ár en á síðustu hundrað árum höfum við alveg náð að vinna það upp," segir Jónína Erna Arnardóttir píanóleikari og skipuleggjandi hátíðardagskrárinnar Fullveldi til fullveldis sem flutt var í Reykholtskirju í Borgarfirði 1. desember.

Þar var farið yfir tónlistarsögu landsins í tali og tónum. Flytjendur voru Bergþór Pálsson, karlakórinn Söngbræður og trio Danois en það tríó er búið að fara víða um Evrópu síðustu ár.

„Við stofnuðum tríóið fyrir fimm árum, ég og tveir samnemendur mínir úr tónlistarháskólanum í Bergen í Noregi. Við spilum eingöngu norræna tónlist og höfum farið með hana víða um Evrópu, ætli við höfum ekki haldið um sjötíu tónleika á þessum fimm árum og verið býsna vel tekið þó þetta sé óvenjulegt tríó að því leyti að það eru tveir píanóleikarar og einn hornleikari, en það er að virka," segir Jónína.