Tómas Stankiewicz hefur gert það gott undanfarna mánuði með tónlistartegund sem hefur verið kennd við bókasöfn, bæði innanlands og erlendis, og útvarpsþætti á hinni virtu tónlistarstöð NTS Radio.


Þórður Ingi Jónsson skrifar:

Tómas er mikill áhugamaður um kvikmyndatónlist og svokallaða „library“-tónlist eða kvikmyndatónlist, sem búin er til fyrir sérstök tónlistarsöfn. Heimur safnatónlistarinnar hefur stækkað gríðarlega á síðustu árum, meðal annars út af svokallaðri sampl-menningu, þar sem tónlistarmenn „sampla“ eða safna saman hljóðbútum héðan og þaðan til að búa til nýtt efni. Þegar Tómas byrjaði að semja tónlist fór hann að sampla og það var þannig sem hann komst inn í þessa tegund tónlistar.

„Það leiðir mann út í alls konar tónlist eins og djass og kvikmyndatónlist og í rauninni allt sem maður getur fundið sem er áhugavert,“ segir Tómas sem í kjölfarið sökkti sér ofan í kvikmynda- og hljóðbankatónlist. „Einhvers konar andrúmsloft. Þetta er náttúrulega eiginlega kvikmyndatónskáld sem fengu frelsi til að skapa mismunandi þemu og andrúmsloft áður en kvikmyndirnar voru búnar til.“

„Ég var náttúrulega búinn að vera mikið að stúdera kvikmyndatónlist og þá byrjaði ég ósjálfrátt að semja í þeim stíl,“ segir Tómas. „Ég var í rauninni sjálfur að semja senur og einhverja svona kvikmyndatónlist án þess ætla mér það. Ég er núna fyrst byrjaður að fá verkefni þar sem ég er að gera það fyrir einhvern sértakan tilgang. Það er í raun það sem library-tónlist er, tónlist fyrir senur sem eru ekki til nú þegar.“

Tómas bjó úti í Los Angeles í Bandaríkjunum þegar honum bauðst að vera með þátt á útvarpsstöðinni þekktu NTS. Þar spilar hann vel valin stef úr þessum heimi, heimi safnatónlistar. Auk þess að gera sína eigin tónlist í gegnum tíðina hefur Tómas verið að vinna með þekktum nöfnum í tónlistarheiminum eins og Teebs og MNDSGN sem gefa út hjá hinum virtu plötuútgáfum Brainfeeder og Stones Throw í Kaliforníu. Hann hefur líka unnið með tónlistarkonunni Kelsey Lu, sem gaf nýlega út lag með undirspili frá Tómasi og engum öðrum en Skrillex, raftónlistarmanninum fræga.

Tómas segir að von sé á nýju efni frá honum á næstunni í samstarfi við Stones Throw og Brainfeeder en hann vinnur með Teebs að tveimur lögum á væntanlegri breiðskífu hans. „Fyrsta smáskífan er eitt af okkar lögum og á að koma út bara sem fyrst og við munum líklegast halda tónleika hérna á íslandi í vor. Við erum líka að taka upp tónlistarmyndband á Íslandi. Síðan á Stones Throw þá er það nýtt efni með tónlistarmanninum MNDSGN sem heitir Ringgo. Það verður líka gefið út eitthvað seinna á þessu ári.“

Það mætti segja að safnatónlistin hafi átt sína gullöld á sjöunda og áttunda áratugnum í Bretlandi, Ítalíu og Frakklandi og sé nú orðin hluti af menningarheimi okkar. Tónskáldin á gullskeiði safnatónlistar höfðu frelsi til að gera hvað sem er. Tómas er einn þeirra sem heilluðust og segir að þessi tónlist tali tungumál andrúmsloftsins eins og hann orðar það sjálfur. „Tónlistin er eins og tungumál andrúmsloftsins fyrir þessar kvikmyndir og mér finnst mjög flott að tónlist getur verið notuð sem tæki til þess að skapa einhverja töfra í kringum svona senur og í kringum andrúmsloft og þannig séð bara búa andrúmsloftið til eða breyta því. Mér finnst það mjög áhugavert.“

Þórður Ingi Jónsson ræddi við Tómas Stankiewicz í Lestinni en viðtalinu var útvarpað 18. janúar. Laugardagskvöldið 10. mars kemur Tómas Stankiewicz fram á tónleikum í Mengi ásamt Teebs.