Tvær ungar konur sem hafa fengið sig fullsaddar af því hversu dýrar getnaðarvarnir eru og aukaverkunum sem þær valda, nota nú nýstárlega tölvu sem mælir frjósemi þeirra. Tölvan segir til um hvaða daga tíðahringsins líkur eru á getnaði og hvaða daga konur eru ófrjóar.

Tækið mælir hitastig kvenna á barneignaraldri og segir til um frjósemi þeirra. Þá daga sem tölvan sýnir grænt ljós eftir mælingu er konan ófrjó og þarf ekki að nota getnaðarvarnir vilji hún ekki verða þunguð. Rautt ljós merkir að konan sé frjó.

Lára Bryndís Pálmarsdóttir, kona á barneignaraldri, segir að þetta sé bæði fyrir konur sem séu að reyna að eignast börn og þær sem vilji ekki eignast börn. Hún segir að þetta tæki sé alveg 99,3% öruggt.

Lára Bryndís segir tækið nokkuð dýrt. Það kosti nokkra tugi þúsunda. Miðað við algengustu getnaðarvörnina, pilluna, þá borgi tækið sig upp á um það bil þremur árum. Tækið dugi svo minnst í 10 ár.

Lára Bryndís segir að ekki sé verið að nota neina hormóna. Eins og í hennar tilfelli hafi hún verið með mjög miklar aukaverkanir vegna hormóna þannig að hún hafi ekki getað notað þá. Samt sætti fólk sig við aukaverkanirnar því það viti ekki að það sé til eitthvað annað. Lára Bryndís segir að hún hafi þjást að miklum aukaverkunum og maðurinn hennar sé mjög ánægður með breytinguna því hún hafi verið með skapgerðarbresti, þjáðst af kynkulda og verið með lélegt blóðflæði í fætur. Ástandið hafi verið mjög slæmt.