Tólf ára ökumaður ætlaði þvert yfir Ástralíu

23.04.2017 - 11:47
Mynd með færslu
 Mynd: Brian Voon Yee Yap  -  Wikimedia Commons
Ástralska lögreglan stöðvaði tólf ára gamlan dreng sem ætlaði að keyra sjálfur frá austurströnd álfunnar til vesturstrandarinnar. Drengurinn hafði þá þegar lokið þúsund kílómetrum af svaðilförinni.

Hann var stöðvaður í námubænum Broken Hill, en þaðan er um 14 klukkustunda akstur frá Kendall á austurströndinni, þar sem ferðalangurinn ungi hóf för sína. Drengurinn ætlaði sér að keyra um 4.000 kílómetra leið til borgarinnar Perth á vesturströndinni, en var gripinn með brotinn stuðara, sem hékk undan bílnum og dróst eftir þjóðveginum.

Strákurinn var handtekinn, og reynir lögregla nú að komast til botns í málinu. Akstursleiðin frá Kendall til Perth liggur í gegnum hrjóstrugt eyðimerkurlandslag, og tekur meira en 40 klukkustundir að keyra stranda á milli.

Á opinberum áströlskum upplýsingavef fyrir ferðamenn er fólki ráðlagt að hafa með sér aukaeldsneytisbirgðir og helling af vatni og mat. Ástralía er sjötta stærsta land í heimi, og meira en 70 sinnum stærri en Ísland.

Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV