Tíu ár eru í dag liðin síðan búsáhaldabyltingin hófst, á sama tíma og Alþingi kom saman til funda í fyrsta sinn eftir jólafrí nokkrum mánuðum eftir bankahrunið. Þúsundir mættu í miðbæ Reykjavíkur til að mótmæla ríkisstjórninni og störfum hennar eftir hrun. Tæpri viku síðar sprakk stjórnin, ný stjórn var mynduð og efnt til þingkosninga.

Ólgan í íslensku samfélagi hafði farið vaxandi frá hruninu í október. Vikulegir mótmælafundir á Austurvelli urðu sífellt fjölmennari þegar leið á árið þar til dró úr þeim í aðdraganda jóla. Fjölmennir borgarafundir höfðu verið haldnir í Iðnó og Háskólabíói. Formleg og óformleg félagasamtök spruttu upp. Þrátt fyrir að rólegra yrði yfir samfélaginu um hátíðirnar var mikil spenna undir niðri.

Átök við þinghúsið

Þann 20. janúar var komið að því að Alþingi kæmi aftur til starfa. Það vakti nokkra ólgu að ekkert mál sem sneri að aðgerðum vegna hrunsins var á dagskrá þingfundar. Efnt var til mótmæla á Austurvelli og fólk hvatt til að koma með sleifar og potta til að mynda hávaða fyrir framan þinghúsið. Hvatt hafði verið til friðsamlegra mótmæla en fljótlega kom í ljós að þolinmæði margra var þrotin. Sumir mótmælendur héldu sig á Austurvelli en aðrir umkringdu þinghúsið og reyndu að komast þar inn. Fjölmennt lögreglulið hélt aftur af mannfjöldanum, á þriðja tug voru handteknir þennan fyrsta dag og bílastæðakjallari Alþingis notaður til að geyma fólk þar til hægt væri að flytja það á lögreglustöð.

Alþingisgarðurinn fylltist af fólki, skyri var slett á lögreglumenn og mikið gekk á undir hávaðasömum slætti fólks á búsáhöld. Um kvöldmatarleytið var búið að kveikja varðeld fyrir framan Alþingi. Í beinni útsendingu sjónvarpsfrétta mátti sjá mann koma með vörubretti úr timbri og skella því á eldinn. Eldar áttu eftir að loga við Alþingi og jólatréð á Austurvelli var að lokum fellt og borið á eldinn.

Hávaðinn var ekki aðeins fyrir framan og allt í kringum Alþingishúsið heldur heyrðist hann líka vel inni í þingsal. Þar tókust stjórnmálamenn á um hvort halda ætti áfram þingfundi eða gera hlé á honum vegna mótmælanna.

„Það kom ekki til greina að láta mótmæli við þinghúsið hafa áhrif á framvinduna í þinginu. Það kom að sjálfsögðu ekki til greina,“ sagði Sturla Böðvarsson, forseti Alþingis, í kvöldfréttum.

Geir H. Haarde forsætisráðherra sagði í þingræðu að mjög mikilvægt væri að ríkisstjórnin fengi vinnufrið til að sinna mikilvægum málum. Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna sagði að framar öllu öðru þyrfti ríkisstjórnin að fara frá og almenningur fá tækifæri til að kjósa nýtt þing. „Þegar forsætisráðherra þjóðarinnar óskar eftir því að fá frið fyrir lýðræðinu, frið fyrir fólkinu, frið fyrir þjóðinni, þá er illa komið.“

Mestu mótmæli í 60 ár

Guðni Th. Jóhannesson sagnfræðingur sagði í sjónvarpsfréttum að kvöldi 20. janúar 2009 að ekki hefðu orðið jafn hörð mótmæli við Alþingishúsið síðan 1949 þegar Alþingi samþykkti inngöngu Íslands í Atlantshafsbandalagið. Þá kom til átaka á Austurvelli og lögregla notaði táragas. „Í dag var lögreglan að kljást við tiltölulega lítinn hóp mótmælenda. Þá voru stríðandi fylkingar almennings á Austurvelli.“