„Það er ákaflega ánægjulegt að sjá frumvarp um kynrænt sjálfræði loksins fara inn í gegnum fyrstu stig samráðsferlis," segir María Helga Guðmundsdóttir, formaður Samtakanna '78. Þó vanti þar enn vernd gegn inngripum í líkama barna með ódæmigerð kyneinkenni og það sé kominn tími til að taka það skref.  „Það er mjög mikil samstaða um það í alþjóðasamfélaginu að gefa eigi einstaklingum tækifæri til að þroskast og taka síðan þátt í ákvörðunartökuferlinu."

„Þetta er kannski mikilvægasta mannréttindamálið sem þetta frumvarp gæti tekið á og við teljum að tíminn sé núna," sagði María Helga í Morgunútvarpi Rásar 2.

Inngrip geta haft alvarlegar afleiðingar

Samráði um drög að frumvarpi um kynrænt sjálfræði lauk í vikunni en alls bárust um 30 umsagnir og ljóst af þeim að fyrirhuguð lagasetning nýtur mikils og víðtæks stuðnings. Samtökin '78 og fleiri hagsmunasamtök leggja þó til ákveðnar breytingar, til dæmis að líkamleg friðhelgi barna undir 16 ára aldri verði tryggð.

„Margt í þessu frumvarpi er ákaflega gott," segir María Helga. „Það á sérstaklega við um þann hluta sem lýtur að transfólki og viðurkenningu á kynvitund einstaklinga hjá hinu opinbera. Hins vegar setjum við pressu í okkar umsögn á það að vernd fyrir kyneinkenni barna undir sextán ára aldri verði hluti af þessu frumvarpi."

Vandamálið er að það er verið að gera aðgerðir á börnum þar sem kyneinkennin eru óljós?

„Eins og kom fram til dæmis í skýrslu sem Amnesty International gaf út í vikunni um stöðu fólks með ódæmigerð kyneinkenni á Íslandi þá er verið að framkvæma inngrip í líkama barna og breyta kyneinkennum þeirra þannig þau séu líkari norminu sem við eigum að venjast fyrir dæmigerða drengjalíkama eða dæmigerða stúlkulíkama. Staðreyndin er sú að þessi inngrip geta haft mjög alvarlegar og mjög langvarandi afleiðingar fyrir þessa einstaklinga; haft mikil áhrif á heilsu þeirra, gert þá jafnvel háða ítrekuðum læknainngripum ævina á enda og haft alvarleg áhrif á andlega heilsu þeirra líka. Það er mjög mikil samstaða um það í alþjóðasamfélaginu að það eigi að hætta að gera svona inngrip, gefa einstaklingum tækifæri til að þroskast og taka síðan þátt í ákvörðunartökuferlinu á öllum þeim stigum þar sem það er hægt."

María Helga bendir á að frumvarpið hafi verið í hátt tvö ár að velkjast milli deilda og ráðuneyta. „Í því ferli held ég að kannski pressan á að koma fram með eitthvað og byrja á þessu hafi orðið svo mikil að það var ákveðið að fara í það sem er auðvelt að gera núna frekar en að stíga skrefið til fulls. Við teljum að tími sé kominn til að stíga skrefið til fulls. Það er búið að landa flestum álitamálum varðandi frumvarpið en það sem á eftir að landa eru viðhorfin til þessara inngripa."

Kynvitund þróast og breytist

Meðal annarra athugasemda samtakanna er að vegna laga um nafnabreytingar er aðeins hægt að breyta um kyn einu sinni. 

„Eins og staðan er í íslensku lagaumhverfi í dag er bara hægt að breyta nafninu sínu einu sinni. Því til samræmis þá myndi nafn- og kynskráningarbreyting bara vera heimiluð einu sinni í þessum drögum. Það er ekki fullnægjandi til að tryggja bæði jafnræði einstaklinga til að fá skráningu í samræmi við kynvitund sína og hreinlega bara öryggi þeirra. Við getum til dæmis ímyndað okkur að einstaklingur sem er kynsegið og fær breytingu á skráningu sinni í hvorugkyn fái tækifæri til að flytjast tímabundið til lands þar sem þetta er ekki viðurkennt og gæti jafnvel stefnt öryggi viðkomandi í hættu. Þá þarf að vera alveg tryggt að það sé hægt að breyta skráningunni aftur. Auk þess þróast kynvitund einstaklinga með tímanum."