Vistspor byggingariðnaðarins er gríðarstórt. Sementsframleiðsla eins og sér losar um 5% af koltvísýringi í heiminum. Er mögulegt að draga úr steypunotkun og þar með gróðurhúsaáhrifum byggingariðnaðarins? Já - með því að nota önnur efni, til dæmis timbur.

Friðrik Páll Jónssn fjallar um háhýsi úr timbri pistli í Samfélaginu á Rás 1. 

Stöðugt fleiri búa í borgum og yfirvöld vilja ekki að borgirnar þenjist út. Ráðið er að þétta byggðina með háhýsum. Timbur hefur hingað til ekki þótt hentugt til háhýsabygginga. Timburhús eru oftast lítil, í mesta lagi nokkrar hæðir og ekki til þess fallin að þétta byggð í borgum. En nú hafa arkitektar og byggingafyrirtæki leyst þennan vanda og bjóða upp á háhýsi úr timbri sem eru miklu vistvænni en steypt hús. Nú þegar hafa nokkur verið byggð og mörg eru á teikniborðinu.

Í síðasta mánuði lauk smíði timburháhýsis við Mjøsa-vatn í Noregi, um 150 km fyrir norðan höfuðborgina Ósló.

Arkitektinn segir að formin séu einföld. Byggingartæknin hefðbundin. Verklag sem Norðmenn þekki mætavel. Til fyrirmyndar þykir að byggingarefnið er úr næsta nágrenni. Sama gildir um sögunarmyllur og límtrésframleiðslu. Mest af því sem þurfti í turninn fæst í innan við 20 km geisla frá honum.

Húsbyggingin er að mörgu leyti sjálfbær

Og þar er einnig, eins og víðar í Norður-Evrópu, mikil þekking á skógrækt, skógarhöggi, vinnslu efnis og notkun þess. Húsbygging af þessu tagi er að miklu leyti sjálfbær. Timbrið þarf ekki að flytja inn frá Póllandi, Eystrasaltslöndunum eða Rúmeníu með tilheyrandi kolefnisspori. Og þegar tré er fellt í nágrenninu er annað gróðursett í staðinn.

Stærsta límtrésverksmiðja Noregs er í 10 km fjarlægð frá turninum. Hún notar aðeins nærtæk tré og framleiðir 25 þúsund rúmmetra af bjálkum á ári, þeir stærstu tveggja m þykkir og 30 m langir. Eina leiðin til þess að byggja með sjálfbærum hætti er að nota efni úr nágrenninu.