Yfirlögregluþjónn á Suðurlandi segir að breytt verklag lögreglu og félagsmálayfirvalda í heimilisofbeldismálum hafi leitt til þess að þolendur treysti yfirvöldum betur. Tilkynningum vegna ofbeldis á heimilum hefur fjölgað eftir að lögreglan hóf átak í málaflokknum.
Verklagið, sem átakið byggir á, var þróað á Suðurnesjum en árið 2015 fóru önnur lögregluembætti á landinu að taka það upp, þar á meðal lögreglan á Suðurlandi þar sem Oddur Árnason yfirlögregluþjónn hefur haldið utan um málaflokkinn.
„Við erum að sjá fjölgun mála. 2015 voru þetta rúmlega 40 en voru rétt um 60 árið 2018. Við vildum í upphafi og héldum því fram að ef við værum að fá fjölgun í þessum málaflokki þá værum við að ná árangri því fólk væri að upplifa að það gæti treyst yfirvöldum, félagsþjónustu og lögreglu og það myndi þýða það að málunum fjölgaði,“ segir Oddur.
Átakið er meðal annars byggt á samstilltum viðbrögðum félagsmálayfirvalda og lögreglu þar sem gerendum er boðinn samningur um að víkja af heimili þar sem tilkynnt er um ofbeldi.
„Menn gangast undir það að víkja af heimili á meðan er verið að greiða úr málum, menn eru að leita sér aðstoðar og þess háttar. Og síðan ef menn brjóta gegn þessum samningi þá erum við mjög fljótir að úrskurða um nálgunarbann og brottvísun og fáum það staðfest fyrir dómi á þeim grundvelli að það er búið að reyna vægari úrræði,“ segir Oddur.
Hann segir afar sjaldgæft að gerendur brjóti gegn þessum samningi og að þolendur séu sáttir við þetta úrræði.
„Ef þolendur eru ekki tilbúnir að taka þátt í þessu, þá erum við að beita úrskurði um nálgunarbann og brottvísun. Það verða allir að vera með og tilbúnir í þessa leið,“ segir Oddur.